Brást trausti sem lögreglumaður

Brotin voru framin yfir nokkurra ára skeið.
Brotin voru framin yfir nokkurra ára skeið. mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur segir að fyrrverandi lögreglumaður sem var í morgun sakfelldur fyrir mörg brot í opinberu starfi hafi brugðist því trausti sem honum var falið með starfi sínu sem lögreglumaður.

Jens Gunnarsson, er fyrrverandi lög­reglu­maður hjá fíkni­efna­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu. Hann var dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir mörg brot í opinberu starfi sem lögreglumaður sem voru framin á nokkurra ára tímabili, m.a. brot á þagnarskyldu og spillingu.

Alls voru þrír menn ákærðir í málinu, eins og greint hefur verið frá. Pét­ur Axel Pét­urs­son var dæmd­ur í níu mánaða fang­elsi en Gott­skálk Þor­steinn Ágústs­son var sýknaður í mál­inu. Bæði Jens og Pétur eru dæmdir til að greiða um fjórar milljónir króna hvor í málsvarnalaun og samtals 3,4 milljónir krónur óskipt í sakarkostnað.

Óeðlilegt upplýsingasamband

Upphaf málsins var að ónefndur maður mætti til fundar við ríkissaksóknara og afhenti upptöku af samtali Jens og Péturs. Upptakan var lág og mikið um truflanir en af henni mátti heyra að Pétur tók upp án vitneskju Jens. Á upptökunni er rætt um starfsemi fíkniefnadeildar og að tilgreindur lögreglumaður sé spilltur. Þótti upptakan gefa til kynna að mennirnir ættu í óeðlilegu upplýsingasambandi þar sem Jens, sem rannsóknarlögreglumaður, væri að gefa upplýsingar sem brytu gegn þagnarskyldu hans í starfi. Þá var talið að samtalið gæfi til kynna að um mútugreiðslu væri að ræða.

Við rannsókn komu í ljós frekari samskipti milli Jens og Péturs. Þá fundust samskipti við Gottskálk þar sem hann virðist leita eftir tiltekinni skýrslu gegn greiðslu.

Jens var handtekinn 28. desember 2015 og í kjölfarið var farið í húsleit á heimili hans og vinnustað. Á vinnustaðnum fundust í skúffu á skrifborði hans fíkniefni og tvær loftskammbyssur. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald 29. desember 2015 til 5. janúar 2016.

Jens Gunnarsson (til vinstri) ásamt lögmanninum Vilhjálmi Vilhjálmssyni í héraðsdómi.
Jens Gunnarsson (til vinstri) ásamt lögmanninum Vilhjálmi Vilhjálmssyni í héraðsdómi. mbl.is/Árni Sæberg

Funduðu í Öskjuhlíð

Ríkissaksóknari ákærði svo mennina í nóvember og er ákæran í fimm liðum. 

Í þeim fyrsta var Jens ákærður fyrir brot gegn þagnarskyldu í starfi sínu sem lögreglumaður og Pétur fyrir hlutdeild í þeim brotum. Síðla sumars eða haustið 2015, þegar Jens var lögreglumaður í deild R2 við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, átti hann fund með Pétri í Öskjuhlíð í Reykjavík. Jens upplýsti Pétur um að hann hefði ekki heyrt minnst á hann hjá samstarfsmönnum sínum í deild R2 í einn og hálfan til tvo mánuði, að tiltekin nafngreindur maður væri skráður upplýsingagjafi hjá deildinni og að annar maður væri í upplýsingasambandi við hann. Einnig upplýsti hann Pétur um innra skipulag og málefni fíkniefnadeildar auk þess sem hann greindi honum frá nöfnum og hlutverki lögreglumanna í deildinni. Pétur var ákærður fyrir að hafa með spurningum og hvatningu fengið Jens til að veita sér framangreindar upplýsingar. 

Jens upplýsti ennfremur Pétur, frá árinu 2013 til ársloka 2015, ítrekað um skráningar í upplýsingakerfi sem lögregla heldur um fíkniefnamál, mansal og vændi, þegar upplýsingar sem vörðuðu Pétur voru skráðar þar. Pétur var ákærður fyrir að hafa óskað eftir og hvatt Jens til að veita sér upplýsingarnar.

Fékk síma og heimtaði peninga

Í öðrum lið ákærunnar voru þeir Jens og Pétur ákærðir fyrir spillingu. Jens var sakaður um að hafa síðla sumars eða um haustið 2015 látið Pétur lofa sér og tekið við frá honum farsíma, og í lok mars 2015 eða síðar móttekið annan farsíma að andvirði 19.990 krónur frá Pétri. Þetta hafi verið gert í tengslum við starf Jens sem lögreglumanns. Pétur lofaði, gaf og bauð umræddar gjafir eða ávinning í tengslum við starf Jenst sem opinbers starfsmanns og sem lið í samskiptum þeirra sem meðal annars er lýst undir fyrsta hluta ákærunnar. 

Þá heimtaði Jens í sms-skilaboðum í ágúst 2012 peninga af Pétri í tengslu við störf sín sem lögreglumaður.

Sýknaðir í tengslum við skýrslu um Kaupþing banka

Í þriðja lið ákærunnar voru þeir Jens og Gottskálk, sem eru gamlir vinir, ákærðir fyrir spillingu. Fram kemur, að á tímabilinu 27. ágúst til 19. september 2013 hafi þeir verið í sms-samskiptum þar sem Jens lét Gottskálk lofa sér í sambandi við framkvæmd starfa hans sem lögreglumaður, 500.000 króna peningagreiðslu og tveimur flugmiðum gegn því að Jens útvegaði Gottskálk skýrslu um Kaupþing banka. Gottskálk sendi Jens m.a. eftirfarandi skilaboð: „Fyrir 500 túsund heldur tu ad tad se ekki hægt ad finna skýrsluna fyrir tad?“ Þessu svaraði Jens samdægurs: „Það ætla ég að vona, ég kem heim seinnipart á þriðjudag.“

Ennfremur segir að Gottskálk hafi boðið Jens framangreindar gjafir eða ávinning í tengslum við starf Jens sem opinber starfsmaður. Taka skal fram að bæði Jens og Gottskálk voru sýknaðir hvað þennan ákærulið varðar.

Brot í opinberu starfi og stórfell vanræksla

Í fjórða lið ákærunnar var Jens ákærður fyrir brot í opinberu starfi, með því að hafa frá árinu 2011 til ársloka 2015, í stöðu sinni sem lögreglumaður, ekki gætt lögmætra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, þegar hann var í upplýsingasambandi við Pétur, án vitundar yfirmanna sinna og í andstöðu við III. kafla reglna innanríkisráðherra um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála og reglna ríkissaksóknara um samskipti lögreglu við upplýsingagjafa við rannsókn sakamáls.

Segir að Jens hafi um eins eða tveggja mánaða skeið fram til 29. desember 2015, í stöðu sinni sinni sem lögreglumaður, gerst sekur um stórfellda og ítrekaða vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu, með því að varðveita 1,18 grömm af amfetamíni og 10 millilítra af vefaukandi sterum af gerðinni bodenón undecýlenat og 20 millilítra af testósterón prípíónati í skrifborðsskúffu á vinnustað sínum. Lyfin hafði Jens fengið afhent vegna starfs síns en ekki gengið frá þeim í samræmi við reglur ríkislögreglustjóra.

Þá var hann sakaður um að hafa gerst sekur um stórfellda og ítrekaða vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu, með því að hafa varðveitt tvær loftskammbyssur í skrifborðsskúffu á vinnustað sínum. Ákærði sem taldi byssurnar hafa verið haldlagðar af lögreglu, gat ekki skýrt hvaða máli þær tengdust, en þær átti að varðveita í geymslu fyrir haldlagða muni.

Í fimmta lið ákærunnar, var Pétur ákærður fyrir fíkniefnalagabrot en við húsleit á heimili hans í janúar 2016 hafði hann í vörslum sínum 18,06 grömm af amfetamíni, 1,77 grömm af hassi og 0,96 grömm af kókaíni.

Með afsagaða haglabyssu og skammbyssu

Loks var Pétur ákærður fyrir brot gegn vopnalögum, með því að hafa, þegar húsleit var framkvæmd á heimili hans, haft afsagaða haglabyssu sem hann átti ekki og hafði ekki skotvopnaleyfi fyrir en byssunni hafði verið stolið í innbroti í júní 2014. Þá var hann með í vörslum sínum skammbyssu án þess að hafa fyrir henni skotvopnaleyfi.

Í dómi héraðsdóms segir, að Jens hafi ekki áður gerst sekur um refsivert brot. „Hann hefur í málinu verið sakfelldur fyrir mörg brot í opinberu starfi sem þó eru misalvarleg. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði brást því trausti sem honum var falið með starfi sínu sem lögreglumaður. Þá voru brotin framin yfir nokkurra ára skeið.“

Héraðsdómur segir að Pétur eigi að baki sakaferil sem nái aftur til ársins 2001. Er þar einkum um að ræða brot gegn umferðar-, fíkniefna- og vopnalögum.

Sem fyrr segir, var Gottskálk sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Greiða milljónir í málsvarnalaun og sakarkostnað 

Þá kemur fram í dómnum, að héraðsdómur hafi gert þau fíkniefni upptæk sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins. 

Jens var ennfremur dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, samtals 3,9 milljónir króna.

Pétur var einnig dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda, samtals 4,1 milljón króna.

Málsvarnalaun skipaðs verjanda Gottskálks greiðast úr ríkissjóði, samtals tvær milljónir króna.

Loks var þeim Jens og Pétri gert að greiða óskipt 3,4 milljónir króna í sakarkostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert