Gert að greiða rúmar 10 milljónir

Hlín Einarsdóttir og Malín Brand.
Hlín Einarsdóttir og Malín Brand. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir utan tólf mánaða fangelsisdóma, þar af níu mánuði skilorðabundna, voru systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand dæmdar til þess að greiða samanlagt rúmar 10 milljónir króna í miskabætur og málskostnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Frétt mbl.is: Felur í sér „algert taktleysi“

Systurnar voru sakfelldar fyrir fjárkúgun og tilraun til fjárkúgunar annars vegar gegn fyrrverandi samstarfsmanni Hlínar og hins vegar gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þáverandi forsætisráðherra. Samstarfsmanninum fyrrverandi hótuðu þær samkvæmt niðurstöðu dómsins kæru vegna meintar nauðgunar en Sigmundi Davíð að opinbera upplýsingar um meint afskipti hans af fjáhagsmálefnum Vefpressunnar ehf.

Fram kemur í dómsorði að hvorug þeirra hafi áður gerst sekar um refsivert brot. Niðurstaða geðrannsóknar á Hlín væri sú að hún væri  sakhæf og ekkert læknisfræðilegt útilokaði að refsing kynni að bera árangur en hún hafði borið því við að hún hefði verið andlega illa stödd þegar atburðirnir áttu sér stað sem dómsmálið fjallaði um. Vottorð um andlega og líkamlega heilsu þeirra beggja bendi ekki til annars en að þær séu sakhæfar.

Frétt mbl.is: Malín og Hlín dæmdar sekar

„Hins vegar þykir rétt að líta til þeirra upplýsinga við ákvörðun refsingar. Við ákvörðun refsingar verður einnig horft til þess að annars vegar var um að ræða fullframið brot en hins vegar tilraun, en tilraunin til fjárkúgunar beindist að þáverandi forsætisráðherra landsins. Þá þykir einnig mega líta til þess að ákærðu hafa mátt þola óvægna fjölmiðlaumfjöllun.“

Fjárhæðin skiptist þannig að Hlín og Malín er gert í sameiningu að greiða fyrrverandi samstarfsmanni Hlínar 1,3 milljón króna í miskabætur. Hlín er gert að greiða verjandi sínum tæpar 3,3 milljónir króna í málsvarnarlaun og Malín sínum verjanda tæplega 3,5 milljónir auk rúmlega 628 þúsund króna til verjanda síns á rannsóknarstigi.

Þá þurfa þær að greiða réttargæslumanni fyrrverandi samstarfsmanns Hlínar í sameiningu rúmlega 943 þúsund krónur og rúmlega 784 þúsund krónur í annan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert