Malín og Hlín dæmdar sekar

Malín Brand og Hlín Einarsdóttir í dómssal.
Malín Brand og Hlín Einarsdóttir í dómssal. mbl.is/Eggert

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun systurnar Hlín Einarsdóttur og Malín Brand í 12 mánaða fangelsi en þær voru ákærðar fyrir fjárkúgun og tilraun til fjárkúgunar með því að hafa reynt að hafa fé af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, og haft fé af fyrrverandi samstarfsmanni Hlínar. Níu mánuðir eru skilorðsbundnir. Hvorug systranna var viðstödd uppkvaðningu dómsins.

Forsaga málsins er sú að lögreglan handtók systurnar á Krýsuvíkurveg í Hafnarfirði í maí 2015. Höfðu þær þá sótt pakkningu í tösku sem skilin hafði verið þar eftir og þær töldu innihalda átta milljónir króna. Féð höfðu þær farið fram á að Sigmundur Davíð greiddi gegn því að þær héldu upplýsingum leyndum um meinta aðkomu hans að fjárhagsmálum Vefpressunnar ehf.

Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá héraðssaksóknara, ræðir við fréttamenn eftir að …
Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá héraðssaksóknara, ræðir við fréttamenn eftir að dómurinn var kveðinn upp yfir Malín og Hlín. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram kom í ákærunni að Hlín hafi ritað tvö bréf á tímabilinu 20. maí til 27. maí 2015. Fyrra bréfið setti hún inn um bréfalúguna hjá Jóhannesi Þór Skúlasyni, þáverandi aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs, en bréfið var þó ekki opnað fyrr en eftir að systurnar höfðu verið handteknar. Seinna bréfið var póstlagt og stílað á eiginkonu Sigmundar Davíðs.

Ennfremur segir í ákærunni að Malín hafi prentað bæði bréfin út og ennfremur ritað nafn og heimilisfang á seinna bréfið. Farið var fram á 7,5 milljónir króna í fyrra bréfinu. Síðara bréfið var samhljóða því fyrra en upphæðin var þá komin upp í átta milljónir auk þess sem fyrirmæli voru gefin um afhendingarstað, afhendingarmáta, gps-hnit og ljósmyndir af afhendingarstaðnum.

Eftir að fjárkúgunarmálið kom upp kærði fyrrverandi samstarfsmaður Hlínar hana fyrir að hafa í apríl 2015 í félagi við systur sína haft af sér 700 þúsund krónur með hótunum um að leggja annars fram kæru til lögreglu um að hann hefði nauðgað henni. Fram kemur í ákærunni að Malín hefði rætt við manninn nokkrum sinnum í apríl og hann síðan afhent henni fjármunina í kjölfar þess.

Í ákærunni kemur fram að Malín hafi rætt við manninn nokkrum sinnum í apríl og hann hafi svo afhent Malín fjármunina 10. og 13. apríl. Fer maðurinn fram á 1,7 milljónir í skaðabætur vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert