Fengu réttláta meðferð hjá dómstólum

Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson ásamt verjendum í Héraðsdómi …
Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson ásamt verjendum í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þeir, ásamt Ólafi Ólafssyni og Magnúsi Guðmundssyni kærðu niðurstöðu Hæstaréttar í al-Thani málinu til Mannréttindadómstólsins. mbl.is/Árni Sæberg

Fjórmenningarnir sem hlutu dóm í al-Thani málinu fengu réttláta meðferð fyrir íslenskum dómstólum að mati íslenskra stjórnvalda, þetta kemur fram í svari stjórnvalda til Mannréttindadómstóls Evrópu og sem greint er frá á fréttavef RÚV.

Í svari stjórnvalda segi þá enn fremur að þau  telji Árna Kolbeinsson hæstaréttardómara ekki hafa verið vanhæfan, þrátt fyrir að sonur hans hafi unnið fyrir Kaupþing og eiginkona Árna hafi setið í stjórn Fjármálaeftirlitsins. 

Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson sem hlutu dóm í al-Thani málinu kærðu niðurstöðu Hæstaréttar til Mannréttindadómstólsins.

Dómstóllinn sendi hérlendum stjórnvöldum bréf þar sem svara var óskað við fjórum spurningum. Lutu þær að hlutleysi Árna Kolbeinssonar hæstaréttardómara, lykilvitnum, aðgengi að sönnunargögnum og hlerunum. RÚV segir Innanríkisráðuneytið hafa sent Mannréttindadómstólnum svörin fyrir hönd stjórnvalda í byrjun mars.  

Í frétt RÚV segir að hlutleysi Árna Kolbeinssonar sé ítrekað í svari stjórnvalda og að ekki sé ástæða til að efast um það. Upplýsingar um að sonur Árna hafi unnið fyrir Kaupþing og að eiginkona Árna hafi setið í stjórn Fjármálaeftirlitsins hafi legið fyrir þegar málið var fyrir dómi. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við það þá af hálfu sakborninganna, eða verjenda þeirra.

Þá er lítið gefið fyrir þær fullyrðingar fjórmenninganna að þeir hafi ekki þorað að mótmæla setu Árna í dóminum þar sem það hefði bitnað á þeim og bent á að efast hafi verið um hlutleysi annars dómara í málinu og hann hafi vikið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina