Hyggjast ekki ráða sig til Landspítalans

Daglegt líf á Landspítalanum.
Daglegt líf á Landspítalanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útskriftarnemar í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri segjast ekki munu ráða sig til Landspítalans að lokinni brautskráningu í vor miðað við þau launakjör sem standa til boða. Lýsa þeir yfir fullum stuðningi við hjúkrunarnema við HÍ í baráttunni um bætt launakjör.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu 4. árs hjúkrunarnema við HA. Þeir segja launakjör hjúkrunarfræðinga almennt of lág og í engu samræmi við menntun, ábyrgð og vinnuálag.

Yfirlýsingin í heild:

Við, útskriftarnemar í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri, lýsum yfir fullum stuðningi við 4. árs hjúkrunarfræðinema við Háskóla Íslands í baráttunni um bætt launakjör. Við munum ekki ráða okkur á Landspítalann að lokinni brautskráningu nú í vor miðað við þau launakjör sem þar standa til boða. Háskólinn á Akureyri hefur í mörg ár boðið upp á fjarnám í hjúkrunarfræði og gefið einstaklingum alls staðar af landinu tækifæri til að stunda nám við skólann. Nú er stór hluti hjúkrunarfræðinema við Háskólann á Akureyri búsettur á höfuðborgarsvæðinu og gæti skilað sér til vinnu á Landspítalann að lokinni brautskráningu.

Við teljum að launakjör hjúkrunarfræðinga séu almennt of lág og í engu samræmi við bæði menntun, ábyrgð og vinnuálag. Algeng byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum og víðar eru í kringum 380 þúsund fyrir 100% starfshlutfall. Í vaktavinnu ætti 80% starfshlutfall almennt að jafngilda 100% vinnu vegna síbreytilegs vinnutíma og vinnuálags. Þannig er vaktavinna metin í nágrannalöndum okkar.

Við förum fram á að menntun okkar og vinnuframlag verði metið að verðleikum og gerum því sömu kröfu og verðandi kollegar okkar um bætt launakjör. Skortur á hjúkrunarfræðingum á Íslandi verður ekki bættur með núverandi launakjörum og vinnuumhverfi. Nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar hafa nú þegar leitað í önnur og betur launuð störf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert