Sósíalistaflokkur verði stofnaður 1. maí

Merki hins óstofnaða stjórnmálaafls.
Merki hins óstofnaða stjórnmálaafls. Skjáskot/www.sosialistaflokkurinn.is

„Sósíalistaflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur almennings á Íslandi. Markmið hans er samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. Þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu.“

Svo hljóðar fyrsta málsgreinin í stefnu Sósíalistaflokks Íslands á vefnum www.sosialistaflokkurinn.is. Flokkurinn er þar sagður „óstofnað stjórnmálaafl“ en fyrir léninu er skráður Gunnar Smári Egilsson, sem fyrir nokkrum dögum hætti sem ritstjóri Fréttatímans.

Gunnar Smári Egilsson, sem skráður er fyrir léninu.
Gunnar Smári Egilsson, sem skráður er fyrir léninu. mbl.is/Eggert

„Hafna málamiðlunum og falskri umræðu“

Í stefnunni segir enn fremur að flokkurinn sé flokkur launafólks „og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi.“

Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru þá sagðir auðvaldið og ráðastéttin. Vettvangur hans sé breið stéttabarátta sem hafni málamiðlunum og falskri samræðu.“

Í starfi sínu leggi flokkurinn loks áherslu á það sem sameini fólkið í landinu:

„[Ó]réttlætið sem við mætum og vilji okkar til að losna undan því. Við bjóðum alla landsmenn, óháð kyni, uppruna, trú eða kynhneigð velkomna til nýrrar og breiðrar baráttuhreyfingar.“

Stofnaður 1. maí

„Þeir sem vilja gerast stofnfélagar að Sósíalistaflokki Íslands, sem formlega verður stofnaður 1. maí næstkomandi, geta skráð sig hér. Sósíalistar allra landa sameinist!“ segir Gunnar Smári á Facebook-síðu sinni nú á ellefta tímanum í kvöld og lætur fylgja hlekk á síðuna.

Á vefnum getur fólk skráð sig til liðs við flokkinn, en þar eru einnig listuð fyrstu baráttumál hans:

  1. Mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, hvort sem þeir eru launamenn, atvinnulausir, lífeyrisþegar, námsmenn eða heimavinnandi.
  2. Aðgengi án takmarkana að öruggu og ódýru húsnæði.
  3. Aðgengi án takmarkana að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum og að gjaldfrjálsu velferðarkerfi sem mætir ólíkum þörfum fólksins í landinu.
  4. Stytting vinnuvikunnar, til að bæta lífsgæði fólksins í landinu og auðvelda því að gerast virkir þátttakendur í mótun samfélagsins.
  5. Enduruppbygging skattkerfisins svo auðstéttin greiði eðlilegan hlut til samneyslunnar en álögum sé létt af hinum verst stæðu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert