Hjátrúin lifir í þjóðarsálinni

Þótt Símon Jón trúi því ekki lengur að varkárni í …
Þótt Símon Jón trúi því ekki lengur að varkárni í umgengni við náttúrunna og umhverfið sé af tillitssemi við huldufólk og blómálfa, er hann þeirrar trúar að við verðum að lifa í sátt og samlyndi við hana til að komast af. mbl.is/RAX

Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur hefur tekið saman fróðleik úr ýmsum áttum í bókinni Fyrirboðar & tákn – Auðnuspor og ólánsvegir. Þótt flest fyrirbærin eigi rætur í samfélögum fortíðar og lýsi veruleika sem er frábrugðin okkar, segir hann ennþá grunnt á hjátrúnni. Fyrirboðar og ýmis tákn séu alltumlykjandi, sumir leiði þau hjá sér, en aðrir bregðist við.

Margt ber að varast í henni veröld vilji menn ekki kalla ógæfu yfir sig og sína. Móðir skyldi ei gefa barni brjóst, hafi það áður verið af því vanið, ella blótar barnið öll lifandis ósköp þegar það verður fullorðið. Lesi kona fræðibækur á meðgöngunni verður barnið gáfað, en geðveikt ef hún pissar úti í tunglsljósi.

Fyrirboðarnir leynast víða og geta verið bæði til góðs og ills, verstir eru feigðarboðarnir. Gagnvart óvirku fyrirboðunum svokölluðu fá menn ekki rönd við reist. Hlaupi svartur köttur í veg fyrir þá verður ógæfan ekki umflúin - svo dæmi sé tekið.

Verndargripur. Kaþólski krossinn sem Símon Jón hafði með sér í …
Verndargripur. Kaþólski krossinn sem Símon Jón hafði með sér í próf í gamla daga. mbl.is/RAX


Tákn, hjátrú og fyrirboðar. Allt er þetta á eina bókina lært. Hún heitir Fyrirboðar & tákn – Auðnuspor og ólánsvegir í daglegu lífi og er eftir Símon Jón Jóhannsson, þjóðfræðing.

„Hugtakið tákn er notað yfir skynjanleg merki sem standa fyrir eitthvað annað og koma í stað þess. Notkun tákna er jafngömul menningunni og þau hafa gegnt viðamiklu hlutverki í trúarbrögðum, stjórnmálum, bókmenntum, listum, siðum og venjum í daglegu lífi fólks,“ segir Símon Jón og nefnir krossa, giftingarhringa, þjóðfána, bókstafi, svört sorgarklæði og rauðar rósir.

Í augum hjátrúarfullra er það slæmur fyrirboði þegar svartur köttur …
Í augum hjátrúarfullra er það slæmur fyrirboði þegar svartur köttur hleypur í veg fyrir einhvern. Jakob Fannar Sigurðsson


Rýnt í hið óþekkta

„Fyrirboðar eru yfirleitt taldir til hjátrúar, sem er hluti af þjóðtrú. Hjátrúin felur í sér trú á tilveru vætta og dularfullra fyrirbæra og brýtur í bága við ríkjandi trúarbrögð. Ýmsar athafnir mannanna eru taldar hafa áhrif á líf þeirra og annaðhvort koma í veg fyrir ólán eða auka gæfu og gengi. Því gjalda menn varhug við hinu og þessu og fara eftir ákveðnum reglum, boðum og bönnum. Þeir telja sig sjá fyrir óorðna atburðarás og jafnvel geta gripið inn í hana með ýmsum úrræðum. Forlagatrú er af svipuðum meiði, menn trúa að þeim séu ásköpuð ákveðin forlög og allt þeirra líf sé fyrirfram ákveðið.“

Símon Jón hefur á tæpum aldarfjórðungi sent frá sér meira en tuttugu bækur, flestar um fyrrgreind fyrirbæri sem og draumaráðningar. „Áhuginn kviknaði á æskuheimili mínu á Akureyri, þar sem þjóðsögunum og þjóðtrúnni var töluvert haldið að mér. Þjóðtrúin var enda mjög lifandi á þeim tíma og fólkið mitt mikið að spekúlera í draumum og táknrænni merkingu þeirra. Ég man eftir að hafa setið við fótskör mömmu, ömmu og vinkvenna þeirra og fylgst með þeim spá í bolla, spil og reyna að rýna í hið óþekkta.“

Láti menn baldursbrá undir koddann hjá sér áður en þeir …
Láti menn baldursbrá undir koddann hjá sér áður en þeir fara að sofa dreymir þá þann sem hefur stolið frá þeim. mbl.is/Jón Sigurðsson


Trúðirðu á þessi fyrirbæri og trúir enn?

„Mér var ungum kennt að bera virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu. Þótt ég trúi því ekki lengur að varkárnin sé af tillitssemi við huldufólk og blómálfa, er ég þeirrar trúar að við verðum að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna til að komast af. Annars spyr þjóðfræðingurinn sig náttúrlega aldrei hvort til séu draugar og þvíumlíkt, hann leitar heimilda og rannsakar sögurnar, sem er óskaplega skemmtilegt,“ svarar Símon Jón en viðurkennir þó að draumar geti verið ákveðin úrvinnsla á ýmsu sem mannfólkið er að bardúsa í sínu daglega lífi.

Draumur á færeysku

Þótt hann sé manna fróðastur um tákn drauma, botnar hann ekki endilega í sínum eigin. „Í einum var ég staddur á skemmtistaðnum Kagganum í Færeyjum. Skyndilega heyrði ég að hljómsveitin spilaði íslenskt lag en söng textann á færeysku. Mér þótti þetta afar merkilegt, en ekki veit ég hver var í kollinum á mér að þýða textann því ég kann ekkert í færeysku. Svona getar draumar verið skrýtnir.“

Hringurinn er tákn eilífðarinnar, án upphafs og endis, og form …
Hringurinn er tákn eilífðarinnar, án upphafs og endis, og form sólar og mána. mbl.is/Árni Sæberg


Hafa draumar þínir ræst?

„Ekki beinlínis. Raunar dreymdi mig eldri dóttur mína nokkru áður en hún fæddist. Mér fannst ég hafa séð hana áður nákvæmlega eins og hún leit út þegar hún kom í heiminn.“

Eftir íslensku- og bókmenntanám í Háskóla Íslands fór Símon Jón til náms í þjóðfræði við Oslóarháskóla. Auk þess að grúska í fræðunum og skrifa bækur kennir hann íslensku við Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Hann segir trú á tákn drauma og alls konar hjátrú lifa í þjóðarsálinni. Oft stoppi fólk hann úti á götu og biðji hann að ráða drauma sína.

Í Kína þótti heillavænlegt að borða appelsínur á öðrum degi …
Í Kína þótti heillavænlegt að borða appelsínur á öðrum degi nýs árs og voru þær tengdar ódauðleikanum AFP


„Verndargripir eins og mér er kunnugt um að margir nemenda minna hafa með sér í próf er auðvitað bullandi hjátrú. Þegar ég var í Noregi var gerð könnun og þá kom í ljós að stór hluti nemenda tók með sér í próf verndargripi, krossa, bangsa og allt hvað eina,“ segir Símon Jón og kveðst sjálfur forðum daga ævinlega hafa haft með sér kaþólskan kross með áföstu talnabandi. Ekki af því að hann væri kaþólskur, heldur trúði hann því að krossinn yrði sér til gæfu. „Svo var vitaskuld allur gangur á því hvernig mér gekk í prófunum. Trú og hjátrú eru tvær hliðar á sama peningi.“

Merkileg þjóðfræðiheimild

Bókinni er skipt í kafla eftir stafrófsröð, enda er hún hugsuð sem handhægt uppflettirit til gamans og fróðleiks. Undir ö-inu er örbylgjuofn, sem bendir til að hjátrú og fyrirboðar eigi sér ekki endilega rætur langt aftur í tímann. Illt er í efni á mörgum heimilum ef rétt reynist að þeir sem horfi í glerið á örbylgjuofni verði blindir eða heimilisfólk náttúrulaust sé ofninn hafður í mittishæð.

Það er óheillamerki að hafa peninga í fleiri en einum …
Það er óheillamerki að hafa peninga í fleiri en einum vasa – þá tapa menn öllu sínu fé.


„Mönnum er eðlislægt að lesa í umhverfið sitt og kringumstæður. Alls kyns hugmyndir kvikna þegar framandi hlutir og fyrirbæri eru annars vegar og þeir kaupa gjarnan furðusögur um það sem þeir hvorki þekkja né skilja – eins og örbylgjurnar. Hjátrú getur verið lífshættuleg, til dæmis sú hræðilega trú í Afríku að menn geti læknast af eyðni ef þeir sofi hjá hreinni mey.“

Eru dæmi um séríslenska hjátrú?

„Hér tengist hjátrú manna oft veðri, afla og sjómennsku, enda búum við í landi þar sem allra veðra er von. Fólk átti lífsafkomuna undir fiskinum og náttúruöflunum. Forlagatrúin speglast víða í Íslendingasögunum og virðist hafa fylgt okkur alveg frá upphafi að við réðum ekki sjálf ferðinni, heldur sé hún vörðuð fyrirfram. Hvur sem það nú gerir.“

Kápa bókarinnar Fyrirboðar og tákn.
Kápa bókarinnar Fyrirboðar og tákn.


Guð kannski?

Já, já, þetta er flest meira og minna samtvinnað úr trúarpælingum og Biblíunni, sem er afar merkileg þjóðfræðiheimild. Ýmislegt sem við tengjum jólum hefur ekkert með kristindóm að gera, til dæmis þetta sígræna tré sem við dröslum heim í stofu um hver jól. Líklega á sá siður frekar rætur í fornri trjádýrkun eða pælingu um gang sólarinnar, vöxt og viðgang náttúrunnar ef út í það er farið.“

Hér getur verið amen eftir efninu.

Tákn samninga í Grikklandi til forna

Íslenska orðið tákn er notað fyrir alþjóðlega orðið symbol sem komið er frá grísku sögninni symbalein; að fella saman. Í Grikklandi til forna var til siðs, þegar gerðir voru samningar milli manna, að skipta einhverjum hlut í tvennt, til dæmis peningi. Hvor samningsaðila fékk síðan sinn helming og þannig var hægt að sannreyna samkomulagið síðar með því að fella brotin saman. Helmingshluturinn kallaðist symbolon, í fleirtölu symbola.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert