„Pen­ing­ar drepa stjórn­mál“

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands.
Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands. mbl.is/Eggert

Um 460 manns eru búnir að skrá sig í Sósíalistaflokk Íslands frá því opnað var fyrir skráningu á vefsíðu flokksins í gærkvöldi. Flokkurinn verður stofnaður formlega 1. maí næstkomandi á baráttudegi verkalýðsins. Á þeim fundi verður kosin bráðabirgða stjórn fyrir flokksþing sem verður í haust. Ekkert fjármagn er á bak við flokkinn heldur verður hann byggður upp á starfi sjálfboðaliða.

„Flokkurinn mun ekki leita til auðmanna og stórfyrirtækja eftir stuðningi. Það má ekki gleyma því að áður en auðmangið eignaðist stjórnmálin voru stjórnmál rekin af fólki sem barðist fyrir réttindum sínum af áhuga. Peningar er eitthvað sem eflir ekki stjórnmál. Peningar drepa stjórnmál,“ segir Gunnar Smári Egilsson stofnandi Sósíalistaflokks Íslands.

Tíminn fram að flokksþingi í haust verður nýttur til að móta stefnu flokksins frekar með flokksfélögum hans. Yfirlýst markmið flokksins, sem finna má að vefsíðu hans, er að að skapa samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. Þau markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu, segir jafnframt á vefsíðunni. 

Uppbygging flokksins mun mótast af því að rétt hlut fólks sem óréttlátt þjóðskipulag hefur bitnað á eins og til dæmis öryrkjum, láglauna fólki, fátækum og leigjendum, að sögn Gunnars Smára. Það sé í samræmi við það sem sósíalisminn hefur staðið fyrir í gegnum tíðina -  að berjast fyrir lágstéttinni.

Hugsa ekki um framboð

„Það var ein vinnuregla hjá þeim hópi sem kom að undirbúningunum að það má enginn hugsa um kosningar fyrr en í fyrsta lagi í haust [...] Fram að haustinu ætlum við að fara út í samfélagið og byggja upp tengsl við fólk, vinna með fólki og standa með þeim sem hafa orðið verst undir óréttlátu þjóðskipulagi. Það kemur í ljós seinna hvort flokkurinn hyggst bjóða sig fram til kosninga,” segir hann aðspurður hvenær flokkurinn muni bjóða fram til kosningar.

Gunnar Smári vildi ekki greina frá nöfnum þeirra sem hafa þegar skráð sig í flokkinn og segist bundinn trúnaði. 

Verkalýðsfélögin þjóna ekki lengur félagsmönnum 

Gunnar Smári segir að flokkurinn muni beita sér fyrir því að láta til sín taka í verkalýðsbaráttunni og einnig innan stéttarfélaganna. Hann bendir á að verkalýðsfélögin hafi verið byggð upp til að gæta hagsmuna félaga sinna en þau standa ekki lengur vörð um þá. „Ég nefni sem dæmi MS sem er sameignarfélag bænda en það þjónar ekki lengur hagsmunum bændanna sjálfra. Sömu sögu er að segja af Tryggingastofnun sem níðist á öldruðum í stað þess að standa vörð um réttindi þeirra,“ segir Gunnar Smári.

Fylkisflokkurinn var „gjörningur“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Gunnar Smári hyggst stofna stjórnmálaflokk. Árið 2014 stofnaði hann vefsíðu Fylkisflokksins þar sem fólk gat skráð sig í flokkinn. Hann varð þó aldrei formlega stofnaður. „Þetta var meiri gjörningur en fór aldrei almennilega af stað. Honum var ætlað að hrista upp í stjórnmálunum sem hann gerði,“ segir Gunnar Smári.

Fylkisflokkurinn vann að endursameiningu Íslands og Noregs með því að Ísland verði 20. fylki Noregs. Að einhverju leyti er Fylkisflokkurinn fyrirrennari Sósíalistaflokksins, að sögn Gunnars Smára. Það sem greinir á milli þeirra er helst að Sósíalistaflokkurinn mun verða stofnaður formlega. 

Markmið hans var að draga fram í umræðuna hér á landi hvernig meginkerfi á Norðurlöndum einblína á hag launafólks en kerfið á Íslandi þjónar eiginhagsmunum. Hann bendir á að á sínum tíma hafi það sem Fylkisflokkurinn stóð fyrir endurspeglast í kjarabaráttu heilbrigðisstétta sem óskuðu eftir sambærilegum kjörum og á hinum Norðurlöndunum.  

Hugsar ekki mikið um ímynd sína 

„Ég hugsa ekki svo mikið um ímyndina mína,“ segir Gunnar Smári aðspurður hvort það sé ekki slæmt fyrir ímynd hans að Fréttatíminn, sem er 46% í hans eigu og hann ritstýrði sé í rekstr­ar­vanda, og á sama tíma sé hann að stofna stjórnmálaflokk. Tæpur tugur starfsmanna hefur ekki enn fengið greidd laun fyrir síðasta mánuð. Hann tekur fram að reksturinn á Fréttatímanum hafi því miður ekki gengið sem skyldi og hann trúi því að laun þessara starfsmanna verði greidd á næstunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert