Sýknuð á grundvelli orðhefndar gegn kynferðisbrotum

Héraðsdómur sýknaði konuna af meiðyrðakæru og vísaði til þess að …
Héraðsdómur sýknaði konuna af meiðyrðakæru og vísaði til þess að orðhefnd konunnar hafi verið vægari en þau brot sem hún hafi orðið fyrir. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Héraðsdómur hefur sýknað konu sem lýsti árið 2015 í Facebook-færslu að hún hefði orðið fyrir hópnauðgun í æsku og að hún hafi átt sér stað með „leyfi“ stjúpbróður síns. Maðurinn fór í mál við konuna og krafðist ómerkingu tiltekinna ummæla auk miskabóta. Héraðsdómur dæmdi manninn til að greiða 950 þúsund krónur í málskostnað.

Var konan meðal annars sýknuð á þeirri forsendu að um „orðhefnd“ væri að ræða þar sem stjúpbróðirinn, sem var tveimur árum eldri en konan, hafi átt í kynferðislegu sambandi við hana síðan hún var 9 ára í alla vega fjögur ár. Var það álit dómsins að háttsemi mannsins, þrátt fyrir ungan aldur, hafi verið stórlega ámælisverð og ótilhlýðileg gagnvart konunni og að ummæli hennar hafi ekki gengið lengur en frumverknaður hans hafi gefið tilefni til.

Hópnauðgað í kvennaklefa íþróttahúss

Upphaf málsins má rekja til þess að konan skrifaði færslu á Facebook-síðu grunnskólaárgangs síns áður en halda átti fermingarafmæli árgangsins. Hafi fjölmargir í árganginum gengið hart að því að hún myndi mæta og af því tilefni hafi hún ákveðið að skrifa um reynslu sína til að skýra afstöðu sína að mæta ekki. Vildi hún einnig gera upp ákveðinn kafla í lífi sínu.

Í færslunni lýsir hún því hvernig hún hafi orðið fyrir hópnauðgun af hópi stráka í grunnskólanum og segir að margir eigi það eitt að þakka að skólastjórinn hafi neitað henni að hringja á lögreglu. Lýsir hún því að hún hafi haldið fyrir andlit sitt meðan nauðgunin fór fram og það hafi verið því hún þyrfti að horfa í andlit drengjanna daglega í bekknum.  

Maðurinn kærði konuna fyrir tvenn ummæli í færslunni: „Ekki einn af draumum mínum að vera læst inni í herbergi meðan að drengirnir skiptust á að uppfylla sínar óskir,“ og  „Margir fengu nú leyfi frá A [innskot blaðamanns: stjúpbróðirinn sem kærir] til að gera það sem þeir vildu. Það var nú fínt þar sem að hann gerði sama hlutinn. Það fékk enginn leyfi frá mér.“

Lýsti kynferðislegu ofbeldi og andlegri kúgun

Fyrir dómi þykir það fullsannað að þau hafi átt í kynferðislegu sambandi frá því að konan var 9 ára og maðurinn 11 ára. Sagði maðurinn það hafa verið með hennar vilja, en öllu dekkri mynd er dregin upp í framburði konunnar og í skýrslutöku yfir vitnum. Þannig hafi maðurinn beitt hana miklu kynferðislegu ofbeldi og andlegri kúgun. Lýsti hún því fyrir dómi að þegar hann hafi misst kynferðislegan áhuga á henni hafi hann fengið „furðulega ánægju út úr því að veita öðrum aðgang að mér. Síðan hafi hann tekið upp fyrri iðju sjálfur.“ Þegar upp komst um málið innan fjölskyldunnar var konan send í meðferð, en maðurinn til föður síns.

Fyrir dómi sagði konan að hún hafi búið við kynferðisofbeldi alla sína skólagöngu og að hún hafi mátt búast við því að setið væri fyrir sér. Lýsti hún því að í eitt skipti hafi stjúpbróðir hennar gefið öðrum strákum „leyfi“ sem hafi endað með hópnauðgun í kvennaklefa íþróttahúss skólans. Henni hafi í framhaldinu verið hópnauðgað oft. Sagði hún færsluna fyrst og fremst snúast um að hún hefði ekkert leyfi gefið fyrir því sem gert var við hana.

Játaði þvinganir á fjölskyldufundi

Meðal þeirra sem vitnuðu í málinu var hjónabands- og fjölskylduráðgjafi sem var fjölskylduvinur. Hafði faðir konunnar beðið hann um að aðstoða þau með „leiðindamál“ sem hefði komið upp í fjölskyldunni, en þá viðurkenndi maðurinn á fjölskyldufundi sem haldinn var á unglingsárum hans að hafa átt í kynferðislegum samskiptum við konuna sem hefði alla vega verið þvingun í sumum tilfellum.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að fyrri ummælunum sem kært var fyrir hafi ekki verið beint gegn manninum og því geti hann ekki farið fram á ómerkingu þeirra. Varðandi síðari ummælin segir dómurinn að konan hafi ekki fært sönnur, gegn neitun mannsins, á að hann hafi veitt umrætt „leyfi“ sem vísað sé til í Facebook-færslunni og hafi verið veitt án hennar samþykkis. Varða ummælin því við ærumeiðingarákvæði almennra hegningarlaga.

Orðhefnd konunnar gegn brotum mannsins

Aftur á móti sé heimilt að láta refsingu falla niður ef tilefni ærumeiðingar var ótilhlýðileg háttsemi þess manns, sem telur sér misboðið eða hann hefur goldið líku líkt. Sjónarmiðin að baki ákvæðinu hafa í refsirétti verið nefnd „orðhefnd“.

Telur dómurinn að svo sé í þessu tilviki. „Það er álit dómsins að sú háttsemi stefnanda, sem að framan er lýst, hafi, þrátt fyrir ungan aldur hans, verið stórlega ámælisverð og ótilhlýðileg gagnvart stefndu í merkingu 239. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er það álit dómsins að augljós tengsl hafi verið milli framangreindrar aðdróttunar stefndu og hinnar ótilhlýðilegu háttsemi stefnanda og að ummæli stefndu hafi ekki gengið lengra en frumverknaður stefnanda hafi gefið tilefni til. Þá verður ekki talið að þótt langur tími hafi liðið milli frumverknaðar stefnanda og orðhefndar stefndu eigi það að koma í veg fyrir réttaráhrif hefndarinnar,“ segir í dóminum.

Var konan því sýknuð af kæru mannsins og hann dæmdur til að greiða 950 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert