Hrafn hreiðrar um sig í Byko

Þetta er í fjórða sinn sem hrafninn hreiðrar um sig …
Þetta er í fjórða sinn sem hrafninn hreiðrar um sig í Byko á Selfossi. Skjáskot úr vefmyndavél

Forsvarsmenn Byko á Selfossi hafa sett upp vefmyndavél utan á húsnæði verslunarinnar, fyrir ofan þar sem hrafn hefur hreiðrað um sig og verpt undanfarin ár og komið upp ungum.

„Nú, það er bara að leyfa landanum að sjá, þetta er í fjórða skiptið sem hún gerir þetta hjá okkur,“ segir Gunnar Bjarki Rúnarsson, verslunarstjóri Byko á Selfossi, í samtali við mbl.is um hvernig það kom til að vefmyndavélin var sett upp. „Það var búið að vera að ýta á okkur að fara í þetta og við ákváðum bara að slá til.“

Gunnar segir enga truflun eða ónæði vera af krumma í hreiðrinu, að minnsta kosti ekki að svo stöddu. „Ekki fyrr en ungarnir fara á stjá, þá geta þetta orðið vandræði,“ segir Gunnar, en þá á krummi það til að setjast á bílana við verslunina þegar ungarnir eru ekki orðnir almennilega fleygir. Þá fylgir fuglinum einnig nokkur óþrifnaður og segir Gunnar að þeir hafi verið tvístígandi með að fjarlægja hreiðrið áður en fuglinn verpti í vor.

„En svo er bara svo mikil aðsókn í að kíkja á þetta þannig að maður nýtir sér það að fá fólkið á svæðið,“ segir Gunnar, „þetta er orðið partur af okkur.“ Bein útsending úr vefmyndavélinni var sett í loftið um sexleytið í gærkvöld og verður útsendingin í gangi allan sólarhringinn þar til ungarnir eru flognir úr hreiðrinu. Útsendingunni má fylgjast með hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert