Yfir Snæfellsjökul á föstudaginn langa

Ari ásamt hópnum sem fór með honum þvert yfir Snæfellsjökul …
Ari ásamt hópnum sem fór með honum þvert yfir Snæfellsjökul síðasta sunnudag. mbl.is/Ari Sigurðsson

Hópur göngu- og fjallaskíðagarpa ætlar að ferðast þvert yfir Snæfellsjökul á föstudaginn langa. Lagt verður af stað frá Reykjavík klukkan 7 í fyrramálið og er heimkoma áætluð um kvöldmatarleytið.

„Það er alltaf erfitt að veðja á gott veður en spáin er rosalega góð fyrir allt suðvesturhornið á föstudaginn. Það er svo æðislegt að standa þarna uppi í góðu veðri,“ segir Ari Sigurðsson, sem skipuleggur ferðina í samvinnu við Jón Inga Dardi. Þeir eru í meðlimir í gönguklúbbnum Vesen og vergangi en meðlimir hans eru yfir tíu þúsund á Facebook.

Á leiðinni niður Snæfellsjökul síðasta sunnudag.
Á leiðinni niður Snæfellsjökul síðasta sunnudag. Ljósmynd/Ari Sigurðsson

Ekið verður inn að Snæfellsjökli  hjá Stapafelli. Gengin er upp hefðbundin leið meðfram gömlu skíðalyftunni að þúfunni sem er hæsti punktur jökulsins í 1.446 metra hæð. Gengin verður önnur leið niður, eða niður að Dagverðará, vestan við Hellnar.

Ljósmynd/Ari Sigurðsson

Einhver óræður kraftur í jöklinum

Ari hefur verið duglegur að fara upp á Snæfellsjökul og fleiri jökla í gegnum árin með vinum sínum og gekk hann einmitt upp á Snæfellsjökul síðasta sunnudag. Hann hefur ekki tölu á skiptunum sem hann hefur farið þangað upp en segir að þau séu einhverjir tugir.

„Það er einhver kraftur þarna sem maður sogast alltaf að, ég veit ekki hvað það er. Maður fær aldrei leið á þessu,“ segir hann og bætir við að nauðsynlegt sé að fólk eigi góðan búnað til að fara í slíkan leiðangur og að það sé í góðu formi. Búist er við 15 til 20 manns í ferðina.

Snæfellsjökull er 1446 metra hár.
Snæfellsjökull er 1446 metra hár. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Er þetta ekkert hættulegt?

„Þetta er auðvitað jökull og á jöklum eru sprungur en við göngum í línum og erum með belti, brodda og axir. Það er allt til staðar og annar okkar er með réttindi sem leiðsögumaður. Við förum aldrei hraðar en hægasti maður,“ segir Ari. „Við erum að blanda saman bæði þeim sem vilja ganga og þeim sem eru á fjallaskíðum. Það er bara skemmtileg blanda.“

Frá ferðinni á Snæfellsjökul síðasta sunnudag.
Frá ferðinni á Snæfellsjökul síðasta sunnudag. Ljósmynd/Ari Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert