Hellirinn var heimili fólks

Laugarvatnshellir var áður nær alfaraleið og þar gátu vegfarendur keypt …
Laugarvatnshellir var áður nær alfaraleið og þar gátu vegfarendur keypt sér kaffisopa á leið sinni yfir Lyngdalsheiðina. Tölvuteiknuð mynd/Laugarvatn Adventure

Framkvæmdir eru að hefjast við Laugarvatnshelli sem útbúa á sem ferðamannastað. Hellirinn er undir svonefndum Reyðarbarmi og ekki langt frá veginum yfir Lyngdalsheiði, milli Gjábakka við Þingvallavatn og Laugarvatns.

Þar til fyrir fáum árum var farinn vegur sem liggur skammt frá hellinum og þá var þetta vinsæll áningarstaður, þótt engin væri aðstaðan. Nú stendur til að koma henni upp, bæta aðgengi og fyrir framan munna hellisins verða seldar veitingar í þjóðlegum stíl. Það er Smári Stefánsson sem rekur fyrirtækið Laugarvatn Adventure sem stendur að þessu verkefni og ætlar hann að opna staðinn 1. júní næstkomandi.

Veitingasala áður fyrr

„Við stefnum að því að gera Laugarvatnshelli aðgengilegan gestum í eins upprunalegri mynd og mögulegt er. Gæða hann lífi á ný og miðla sögu og menningararfleifð til bæði heimamanna og gesta. Þetta er einn fárra hella á Íslandi sem hafa verið mannabústaðir og það ekki útilegumanna, heldur venjulegrar fjölskyldu,“ segir Smári Stefánsson.

Smári Stefánsson rekur fyrirtækið Laugarvatn Adventure.
Smári Stefánsson rekur fyrirtækið Laugarvatn Adventure. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson


Frá 1910 til 1911 bjuggu í Laugarvatnshelli hjónin Indriði Guðmundsson og Guðrún Kolbeinsdóttir og höfðu þar búskap og seldu vegfarendum kaffi. Sama gerðu þau Jón Þorvarðarson og Vigdís Helgadóttir sem þarna áttu heimili sitt frá 1918 til 1921 – og á þeim tíma eignuðust þau þrjú börn.

„Markmið okkar er að endurgera hellinn í þeirri mynd sem hann var þegar búið var í honum. Þannig geta gestir gert sér í hugarlund hvernig fjölskyldurnar tvær bjuggu og hvernig raunveruleiki þeirra var,“ segir Smári. Verkið segir hann munu byrja á því að mokað verði út úr hellinum, en gólf hans hefur hækkað mikið á síðustu áratugum vegna jarðvegsfoks og sauðataðs, enda leitar fé gjarnan skjóls þarna þegar það gengur úti á sumrin. Þá verður byggt þil framan við munna hellisins og innan þess verða settar upp innréttingar í baðstofustíl, rétt eins og voru þegar búið var í hellinum fyrir tæpri öld.

Smári Stefánsson, sem er frá Akureyri, hefur lengi búið á Laugarvatni og kennt við íþrótta- og heilsubraut Háskóla Íslands þar. „Við vildum skapa okkur tækifæri hér á Laugarvatni og bæta við þá starfsemi í ferðaþjónustu sem við þegar erum með, svo sem ferðir í hraunhella og fleira skemmtilegt. Þetta er góð viðbót,“ segir Smári og vekur athygli á því að Laugarvatnshellir sé skammt frá fjölförnum vegi á gullna hringnum. Megi halda því fram að nú hafi enn ein perla og áhugaverður viðkomustaður bæst við á þeirri leið.

„Það er einstakt að búið hafi verið í hellinum, enginn er að segja þá sögu með jafn áþreifanlegum hætti og við hyggjumst gera. Sagan varðveitist og verður gædd lífi sem ekki hefur verið gert áður með jafn áþreifanlegum hætti. Öll vinna við endurgerð híbýlanna verður unnin í nánu samráði við Minjastofnun Íslands og við erum í góðu samstarfi við fólk þar. Það er raunar mjög mikilvægt að hafa gott samráð við alla sem til þekkja í svona málum svo vel takist til í þessari endurbyggingu sem við fjármögnum að stærstum hluta sjálf,“ segir Smári að síðustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert