Eldur í kísilveri United Silicon

Eldur kom upp í kísilverinu um fjögur í nótt.
Eldur kom upp í kísilverinu um fjögur í nótt. mbl.is/Víkurfréttir

Eldur kom upp í kísilveri United Silicon í Helguvík í nótt. Eldur logaði í trégólfum á þremur hæðum í kísilverinu og voru aðstæður til slökkvistarfs erfiðar. 

Víkurfréttir greindu fyrst frá málinu, en útkall barst slökkviliði Brunavarna Suðurnesja um fjögurleytið í nótt og var þá tilkynnt um eld ofnhúsi kísilversins. Þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn logði eldur í trégólfum á þremur hæðum í byggingunni.

Hættulegar aðstæður

Víkurfréttir hafa eftir Jóni Guðlaugssyni, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja, að erfiðlega hafa gengið að slökkva eldinn. Fyrst um sinn hafi þurft að notast við duft, en síðan hafi verið skipt yfir í vatn þegar rafmagn hafði verið tekið af svæðinu þar sem eldarnir logðu.

„Það er erfitt að eiga við þetta af því að þetta er nálægt ofninum og hár straumur þarna, þannig að þetta eru hættulegar aðstæður,“ sagði Jón í samtali við mbl.is.

Slökkvistarfi var enn ekki lokið á sjöunda tímanum í morgun. „Það er búið að drepa allan megineld, þetta eru glæður og eftirvinna og það tekur sinn tíma.“  

Unnið er í kísilverinu allan sólarhringinn og varð eldsins því fljótt vart, en töluverður eldsmatur er á svæðinu að sögn Jóns „Þetta eru milligólf sem eru að brenna þarna og það er þó nokkur eldur þarna.“ Hann segir að vegna stærðar rýmisins byggist þó ekki upp mikill hiti á staðnum.

Eldsupptök eru enn ókunnug, en lögreglan á Suðurnesjum mun fá málið til rannsóknar þegar slökkvistarfi lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert