Listin, líkaminn og landið

Íslensk fjölskyldusaga. Kara Billey rannsakar vatn og geðheilsu fyrir næstu …
Íslensk fjölskyldusaga. Kara Billey rannsakar vatn og geðheilsu fyrir næstu bók sína sem er íslensk fjölskyldusaga.

Hún er hálfur Íslendingur, ljóðskáld og ritlistarkennari. Kara Billey Thordarson hlaut nýlega verðlaun fyrir þýðingu sína á ljóðabókinni Stormviðvörun eftir Kristínu Svövu. Næst hefst hún handa við bók um íslenska fjölskyldu sína.

„Ég er ekki Vestur-Íslendingur, því fjölskylda mín flutti mun seinna til Kanada,“ segir Kara, en föðurforeldrar hennar fluttust á Íslendingaslóðir í Alberta í Kanada fyrir tæpum 60 árum. Afi hennar hét Sveinn Þórðarson og var bróðir dr. Gunnlaugs Þórðarsonar, og því varð Thordarson eftirnafn fjölskyldunnar í Vesturheimi.

„Ég ólst upp í bænum Markerville, bara í næstu götu við hið sögulega Stephansson-hús, þar sem ljóðskáldið Stephan G. Stephansson bjó á sínum tíma,“ segir Kara sem sjálf skrifar undir höfundarnafninu K.T. Billey.

„Það er ekki það að ég sé ekki stolt af íslenska nafninu mínu, síður en svo. En Billey er nafn úkraínskrar móður minnar sem lést þegar ég var unglingur, og ég vil halda því á lífi.

Nemi Nóbelsskálds

Kara fór fyrst að hafa áhuga á ljóðlist á háskólaárum sínum í Alberta University, þar sem hún tók BA í heimspeki með áherslu á náttúru og listir, sem leiddi hana á braut tungumálsins og ljóðlistarinnar.

Kara Billey er hálfíslenskt ljóðskáld sem hlaut verðlaun fyrir þýðingu …
Kara Billey er hálfíslenskt ljóðskáld sem hlaut verðlaun fyrir þýðingu sína á íslenskri ljóðabók.


„Þegar ég byrjaði í tímum hjá Nóbelverðlaunahafanum og ljóðskáldinu Derek Walcott frá Santa Lucia, vissi ég að ég vildi verða ljóðskáld og flytja til New York til að víkka sjóndeildarhringinn. Walcott skrifaði meðmælabréf fyrir mig, sem ég held að hafi hjálpað mér mikið að komast inn í MFA-nám í ritlist við Columbia-háskólann,“ segir Kara, sem núna þremur árum eftir útskrift vinnur við þýðingar, skrifar fyrir sjálfa sig, bæði ljóð og skáldsögu, auk þess að kenna ritlist.

„Ég elska að kenna ljóðlist. Það er það form af skrifum sem er hvað mest opið. Það eru í raun engar reglur, en um leið er formið mjög krefjandi og allt þarf að vera ótrúlega nákvæmt. Og nemendurnir elska þá áskorun sem ljóðaskrifin eru.“

Ánægð með verðlaunin

Fyrr á árinu fékk Kara verðlaun frá American Scandinavian Foundation í New York fyrir þýðingu sína á ljóðabókinni Stormviðvörun eftir Kristínu Svövu, og kallar hana Stormwarning, í einu orði á íslenska vísu.

„Það var mikill heiður fyrir mig að fá þessi verðlaun sem nefnast Leif og Inger Sjöberg Award. Bókin kemur bráðum út hjá bókaforlaginu Phoneme Media, sem ég er líka mjög ánægð með, því það forlag hefur verið að fá viðurkenningar fyrir að gefa út best þýddu bækurnar,“ segir Kara ánægð, en hún fékk peninga og forláta bronspening skreyttan víkingaskipi í verðlaun.

„Útgáfan á bókinni er á tveimur tungumálum, bæði á íslensku og ensku í sömu bókinni, og ég er að vonast til að bókin verði keypt inn í bókaverslanir á Íslandi.“

Tengir vel við Kristínu Svövu

„Aðeins 3% af þeim bókum sem eru útgefnar í Bandaríkjunum eru þýddar bækur, en mér finnst mjög mikilvægt að gefa út erlendar bókmenntir bæði upp á sjónarhornið og umburðarlyndi. Hvað snýr að skáldsögum og ljóðum er talan einungis 0,7%, auk þess sem verk kvenna eru síður gefin út, og því vildi ég þýða bók eftir konu,“ útskýrir Kara sem tók viðtal við rithöfundinn Sjón, sem gaf henni lista með íslenskum kvenljóðskáldum sem Kristín Svava var á.

Kara hlaut verðlaun frá American Scandinavian Foundation í New York …
Kara hlaut verðlaun frá American Scandinavian Foundation í New York fyrir þýðingu sína á ljóðabókinni Stormviðvörun eftir Kristínu Svövu.


„Mér finnst Kristín Svava mjög einstakt ljóðskáld. Þegar ég las fyrsta ljóðið í bókinni sem heitir Böbblí í vúlvunni, vissi ég að ég myndi fíla bókina. Ljóðin hennar gerast núna og eru um eitthvað sem margir velta fyrir sér. Ljóðin eru bæði líkamleg og hæðin, en sýna samt raunverulega umhyggju fyrir fólki. Hún skifar um samband fólks og umhverfis, um pólitík, og það er nokkuð um dökka dínamík í ljóðunum. Mér finnst mjög auðvelt að tengja við hana og hennar skrif,“ segir Kara sem hefur þýtt ljóð fleiri Íslendinga sem hafa birst í ljóðatímariti sem gefið er út í New York og heitir Circumference. „Ég held upp á mörg íslensk ljóðkáld, ekki síst Gerði Kristnýju.“

Af 21. aldar líkömum

Sjálf hefur Kara skrifað ljóðabók sem nefnist Vulgar Mechanics þar sem hún fjallar um látna móður sína, það að alast upp sem sveitastelpa í náttúrunni og það að búa í líkama á 21. öldinni. „Menningin sem við lifum í vill skilja líkama okkar og okkur að, en er á sama tíma heltekin af kynlífi,“ segir Kara.

Bókin komst í úrslit tveggja virtra ljóðabókasamkeppna, þrátt fyrir að hafa ekki verið gefin út ennþá. Ljóðskáldið Soledad Marambio er að þýða hana á spænsku, sem er mjög skemmtilegt, því Kara hefur áður þýtt verk Marambios.

„Ég byrjaði á því að þýða ljóð á spænsku,“ segir Kara sem lærði spænsku í Granada árið 2010.

„Ég hef þýtt Marambio og fleiri spænskumælandi höfunda í nokkur ár. Það er sífellt verið að biðja mig um að þýða meira úr spænsku. Mér þykir vænt um það, en mig langar núna að einbeita mér að íslenskum þýðingum, sökkva mér ofan í íslenskuna. Ég hef verið beðin um að þýða Að heiman, fyrstu skáldsögu Arngunnar Árnadóttur, og ég vona að það gangi upp,“ segir Kara, greinilega spennt.

Vatn og geðheilsa

Kara er byrjuð að viða að sér efni í fyrstu skáldsöguna sína, sem byggist á íslensku fjölskyldunni hennar.

„Ég er búin að pæla þó nokkuð í henni. Þetta er fjölskyldusaga, en geðheilsa og vatn verða þema í bókinni. Langafi minn, Þórður Sveinsson, var geðlæknir á Kleppi, þar sem afi minn og systkini hans fæddust og ólust upp. Langafi hafði mikla trú á „hydrotherapy“, eða því að vatn hefði lækningarmátt og væri lausnin við flestum sjúkdómum. Hann trúði því að mikill sviti gæti losað mann undan þeim djöfli sem sjúkdómurinn er. Ég hef því undanfarið verið að rannsaka vatn. Reyndar skil ég vel að hann hafi tengt vatn og heilsu saman. Fólk er að leita aftur í náttúruna eftir bót á sjúkdómum, sem er rökrétt á þessum tímum þegar fólk hakkar í sig pillur við öllu.“

Andagiftin Silfra

Kara sleppir ekki alveg hendinni af ljóðrænunni, þótt bókin verði skáldsaga.

„Textinn verður meira í ætt við prósa. Silfra á Þingvöllum er nýja andagiftin mín, músan mín. Hún er svo orkuþanin þarna á flekaskilum heimsálfanna. Hún verður aðalpersónan í bókinni. Vinkona hennar verður Flood, sem er persóna úr ljóðabókinni minni Vulgar Mechanics.“

Og skáldkonan er ekki frá því að eiga ýmislegt sameiginlegt með íslenskum kollegum sínum. „Þegar ég var að vaxa úr grasi, þá hélt ég að ég væri mjög kanadísk. En þegar ég fór að lesa íslensk ljóð, sá ég tenginguna við mín ljóð; listina, líkamann og landið, en ég ólst upp í miklu náttúruvíðfeðmi sem hafði djúp áhrif á mig. Svo ólst ég líka upp við íslenskan húmor!“ segir íslensk-úkraínsk-kanadíska ljóðskáldið Kara Billey Thordarson, sem er á leiðinni til landsins í byrjun júní til að dvelja í Gunnarshúsi í tvær vikur við skrif og til að heimsækja Silfru sína.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert