„Skapaðist gríðarleg almannahætta“

Ránið var framið í Apóteki Garðabæjar í morgun.
Ránið var framið í Apóteki Garðabæjar í morgun. Kort/map.is

Lögregla veitti manni eftirför um götur Garðabæjar og Hafnarfjarðar í morgun eftir að hann hafði framið rán í Apóteki Garðabæjar vopnaður exi.

Eftirförin endaði á þann veg að lögreglubifreið var ekið utan í bifreið mannsins. Þá ók maðurinn utan í tvö önnur ökutæki, að sögn Margeirs Sveinssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

„Hann var stöðvaður í Hafnarfirði og eftirförin fór um götur Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Það skapaðist náttúrulega gríðarleg almannahætta. Það er aðallega það sem við erum heppnir með, að það hafi ekki orðið meiri slys,“ segir Margeir í samtali við mbl.is.

Maðurinn var þá handtekinn og er í haldi lögreglu.

Starfsfólk apóteksins þiggur áfallahjálp

Í tilkynningu frá lögreglu segir að henni hafi borist tilkynning um ránið á tíunda tímanum. Maður hefði þá ruðst inn í apótekið vopnaður exi, hótað starfsfólki og komist undan með feng. Upplýsingar hefðu svo legið fyrir um bifreið sem hann notaði til flóttans. Lögreglan hafi þá fljótt orðið vör við bifreiðina og veitt henni eftirför.

„Var bifreiðinni ekið með miklum hraða gegnum Garðabæ og inn í Hafnarfjörð, en meðal annars var bifreiðinni ekið utan í aðrar bifreiðar á flóttanum. Eftirförinni lauk með því að lögreglan átti engra annarra kosta völ en að aka utan í ökutækið og stöðva för þess þannig.

Er það mat lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að mikil mildi hafi orðið til þess að enginn skaði hlaust af hátterni mannsins. Einn maður var handtekinn í bifreiðinni og er málið í rannsókn í þessum töluðu orðum. Starfsfólk apóteksins mun þiggja áfallahjálp vegna málsins.“

Uppfært: Fyrstu upplýsingar mbl.is voru á þá leið að ránið hefði verið framið í Apótekinu Garðabæ. Hið rétta er að það átti sér stað í Apóteki Garðabæjar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert