600 lítrar í fyrstu tilraun

Hjónin Hlín Hólm og Guðbjörn Árnason sáðu fyrsta repjufræinu síðastliðið …
Hjónin Hlín Hólm og Guðbjörn Árnason sáðu fyrsta repjufræinu síðastliðið vor á Teigi III í Fljótshlíð.

„Það er hægt að framleiða mat hérna á Íslandi. Þannig að þetta var allavega mjög skemmtileg tilraun,“ segir Hlín Hólm repjubóndi í samtali við Morgunblaðið. Hlín og eiginmaður hennar, Guðbjörn Árnason, eru búsett í Reykjavík en Guðbjörn er ættaður úr Fljótshlíðinni þar sem þau eiga jörðina Teig III.

Þar hófu þau repjurækt síðastliðið vor og hafa nú framleitt 600 lítra af repjuolíu. Þau hafa þegar hafist handa við að setja hluta olíunnar, 200 lítra, á flöskur sem þau dreifa til vina og vandamanna en restina stendur til að nota á fiskiskipaflotann.

Hlín segir sífellt fleiri sýna repjuolíunni áhuga og nú sé mikil vakning í því að neyta hollra matvæla úr eigin nærumhverfi. „Sumir taka þetta eins og lýsi, taka bara eina matskeið á dag,“ segir Hlín. Sjálf kveðst hún afar hrifin af repjuolíunni og notar hana í nær alla eldamennsku á sínu heimili. „Þetta er bara alveg dásemdar vara, og svo er svo gaman að gera eitthvað svona sjálfur,“ segir Hlín. „Maður líka finnur til pínu ábyrgðar, maður á land og það er fólk í heiminum að svelta, verður maður ekki að taka þátt og gera eitthvað?“

Hluti olíunnar fer á skip

Hlín starfar hjá Samgöngustofu en þar starfar einnig einn helsti repjusérfræðingur landsins, Jón Bernódusson, sem var helsti ráðgjafi þeirra hjóna við ferlið. Síðastliðið vor sáðu þau repjufræi í rúman hektara á landareigninni og var sprettan góð. Í haust var svo uppskeran þreskt, fræið þurrkað og loks pressað svo úr Urðu 600 lítrar af repjuolíu. Að sögn Hlínar fengu þau einnig góða aðstoð frá Ólafi Eggertssyni, bónda á Þorvaldseyri, sem sjálfur leggur stund á repjuræktun.

Hugmyndir eru uppi um að restin af olíunni, um 400 lítrar, verði notuð á íslenska fiskiskipaflotann. „Við duttum í raun inn í slíkt verkefni sem var í gangi. Við gerðum samkomulag við Jón Bernódusson, sem stjórnar repjurannsóknum Samgöngustofu, og sem var okkar ráðgjafi í þessu ferli um að hluti olíunnar sem kæmi úr ræktuninni færi á skip hjá Skinney-Þinganesi á Höfn,“ útskýrir Hlín en þau hafa nú hug á að halda ræktun áfram og taka þátt í fleiri slíkum verkefnum.

Öflugur orkugjafi

Repja hefur gjarnan verið notuð til að framleiða lífdísil víða um heim og hefur einnig verið notuð í fóður fyrir skepnur. Hér á landi hefur repjuolía í auknum mæli verið framleidd til manneldis á undanförnum árum en olían inniheldur omega 3, 6 og 9 fitusýrur sem þykja afar hollar fyrir líkamann.

Samkvæmt skýrslu Samgöngustofu frá árinu 2013 er um helmingur lífmassa repjuplöntunnar stönglar sem nýta má sem áburð eða orkugjafa. Hinn helmingurinn er fræin sem breyta má í olíu og fóðurmjöl en 15% af lífmassanum er olía og 85% er hægt að nýta beint eða óbeint sem fæðu fyrir menn og dýr. Allur lífmassinn nýtist því sem orka eða fæða að því er segir í skýrslunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert