Segir dagsektir koma til greina

Kís­ilmálmverksmiðja United Silicon í Helgu­vík,
Kís­ilmálmverksmiðja United Silicon í Helgu­vík,

Til greina kemur að Vinnueftirlitið beiti United Silicon dagsektum vegna starfsemi kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík þar til kröfum um úrbætur vegna aðstæðna starfsmanna hefur verið sinnt. Þetta hefur fréttavefur Ríkisútvarpsins eftir Eyjólfi Sæmundssyni, forstjóra Vinnueftirlitssins. Eyjólfur segir aðspurður að eldsvoðinn í verksmiðjunni fyrr í vikunni sé ennfremur litinn alvarlegum augum en Vinnueftirlitið fór í morgun í vettvangsrannsókn í henni.

„Vinnueftirlitið hefur gert þarna ýmsar kröfur um lagfæringar því það hefur verið þar vissum þáttum ábótavant. Nú varðandi þennan eldsvoða sem þarna kom upp, þá lítum við það alvarlegum augum og teljum að þar hafi verið um að ræða hættulegt óhappatilvik sem þurfi að rannsaka og við erum sem sagt að rannsaka það mál. Þetta er sem sagt spurning um það hvað raunverulega veldur því að þetta geti gosið upp með þessum hætti,“ er ennfremur haft eftir honum.

Spurður hvort hann telji að starfsmönnum hafi verið hætta búin segir Eyjólfur að svo hefði getað verið. „Það er hugsanlegt að þarna hefði verið einhver vinna þarna í gangi, þó svo að svo vel vildi til að það væri ekki þannig akkúrat þegar þetta gerðist, þá er þetta tilvik sem þarf að útskýra og finna leiðir til að koma í veg fyrir að geti endurtekið sig,“ segir Eyjólfur. Gerð hafi verið krafa um að fram færi heilsufarsrannsókn á starfsmönnum verksmiðjunnar. Vitað sé að heilmikil mengun hafi verið á vinnustaðnum, í það minnsta á tímabilum og því tilefni til þess að framkvæma slíka rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert