Hafa vanist skothríð og sprengingum

Papp ræðir við sýrlensk börn.
Papp ræðir við sýrlensk börn. Ljósmynd/SOS Barnaþorp

Í vesturhluta Aleppo situr fólk á kaffihúsum og kaupir sér ís en í austurhluta borgarinnar hafa átökin milli sýrlenska stjórnarhersins og uppreisnarmanna ekki látið eitt einasta hús ósnortið. Neyðin er mikil; fólk þarf að ganga marga kílómetra til að nálgast vatn og börn jafnt sem fullorðnir þurfa sárlega á áfallahjálp að halda.

Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi Andreas Papp, yfirmanns neyðaraðstoðar SOS Barnaþorpanna, í Háskóla Íslands í morgun. Papp starfaði um tíu ára skeið hjá Læknum án landamæra og hefur m.a. reynslu af neyðaraðstoð í Afríku. Hann heimsótti Sýrland í mars sl. og ferðaðist m.a. til Damaskus og Aleppo.

„Ég hef aldrei séð aðra eins eyðileggingu,“ sagði Papp um ástandið í Aleppo, þar sem hann sagði þörfina á lífsnauðsynjum mikla. Hann ferðaðist frá Damaskus til Aleppo á svæðum undir stjórn sýrlenska hersins en að sögn Papp geta hjálparsamtök yfirleitt aðeins starfað á svæðum annars hinna stríðandi aðila.

Í austurhluta Aleppo búa um 1,5 milljónir manna en „ekki eitt einasta hús stendur heilt,“ sagði Papp. Hann sagði borgarhlutann eyðilagðan. Engu að síður væri fólk að snúa aftur til að athuga hvort eitthvað væri eftir; hvort einhverja framtíð væri að finna í heimaborginni.

Hann sagði ekkert rennandi vatn í austurborginni og við vatnstanka í eigu SOS Barnaþorpa hefði hann átt samtal við mann sem færi margar ferðir á dag til að sækja vatn. Leiðin sem hann færi teldi marga kílómetra.

„90% eru konur og börn," sagði Papp en mennirnir hefðu annaðhvort gengið til liðs við hinar stríðandi fylkingar eða væru látnir. Hann sagði áhyggjuefni að börnin ættu ekki svar við því hvað þau vildu; ef hann spyrði son sinn þeirrar spurningar fengi hann langan lista en börnin í Aleppo svöruðu með þögn.

Þau vita hins vegar hvað þau vilja verða; læknar, kennrarar, bakarar. Í borgarhlutanum eru 14 skólar í rúst, sem þyrfti að endurreisa til að koma börnunum aftur í nám, sagði Papp. SOS Barnaþorp hafa þegar áætlanir um að endurbyggja einn skóla sem uppreisnarmenn notuðu sem sjúkrahús og fangelsi en fjármagn vantar.

Samtökin starfræktu barnaþorp í Aleppo sem þau neyddust til að yfirgefa í kjölfar árásar í nágrenninu. Eins og stendur starfrækja þau barnaþorp í Damaskus og tvær miðstöðvar þar sem börn eru hýst tímabundið. Þar dvelja 210 börn; börn sem hafa oftar en ekki fundist á götunni og eiga enga að. Samtökin greiða fjölskyldum fyrir að senda börnin sín í skóla til að forða þeim frá því að vera látin vinna frá unga aldri. Þá hafa þau séð tugum barna fyrir nauðsynlegum skurðaðgerðum og læknisþjónustu.

Papp sagði SOS Barnaþorp eiga í samstarfi við Rauða krossinn …
Papp sagði SOS Barnaþorp eiga í samstarfi við Rauða krossinn um að finna foreldra eða aðstandendur barna sem hefðu endað í þeirra umsjá. Oft væru það hermenn eða bara almennir borgarar sem kæmu með börnin til samtakanna, eftir að hafa fundið þau á götunni. mbl.is/Árni Sæberg

Eiga þau von?

Papp freistaði þess að svara því hvort unga kynslóðin í Sýrlandi ætti sér von. „Já, það er von,“ sagði hann. Það þyrfti fyrst og fremst að hjálpa börnunum að vinna úr og komast yfir þau áföll sem þau hefðu orðið fyrir og síðan að mennta þau. Hann sagði sláandi að upplifa hvernig þau hefðu vanist átökunum í kringum sig og hvernig skothríð og sprengingar hreyfðu vart við þeim.

Þegar Papp hafði lokið erindi sínu svaraði hann spurningum frá viðstöddum og var m.a. spurður um öryggi á starfssvæðum SOS Barnaþorpa í Sýrlandi. Hann útskýrði þá hvernig stríðandi fylkingar innheimtu oft gjald, eða „skatt“, af hjálparsamtökum en sagði það ekki eiga við í Damaskus. Hann sagði öryggi vissulega eitt helsta áhyggjuefni samtakanna enda erfitt að vinna með báðum aðilum á átakasvæðum. Rauði krossinn væri í raun einu samtökin sem kæmust upp með það en ágætt samstarf er með samtökunum tvennum.

Aðspurður sagði Papp SOS Barnaþorp ávallt freista þess að veita foreldrum sálræna aðstoð jafnt sem börnunum. Stærsta vandamálið sem blasti við væri hins vegar skortur á sérmenntuðu heilbrigðisstarfsfólki. Sagði hann samtökin freista þess að afla sýrlenskum starfsmönnum þjálfunar erlendis og að fá erlenda sérfræðinga til aðstoðar.

Hann ítrekaði að samtökin tækju ekki afstöðu til átakanna í Sýrlandi og benti á að sama gilti í raun um íbúa austurhluta Aleppo; í fjölmiðlum hefði sú mynd verið dregin upp að íbúarnir væru allir á bandi uppreisnarmanna en það væri fjarri sanni. Flestir vildu bara vera heima hjá sér og hefðu freistað þess þar til þeim var ekki stætt lengur í borginni.

Papp kom einnig inn á ástandið í víðara samhengi og sagði um helming allra á vergangi yngri en 18 ára. SOS Barnaþorp hefðu unnið að því að skapa „barnavæn“ svæði á viðkomustöðum flóttamanna en í dag sæti fólk víða fast þar sem landamærum hefði verið lokað. Þá kom hann m.a. inn á hugmyndir um að smíða samræmda námskrá fyrir flóttabörn sem þau gætu fylgt eftir á vegferð sinni, hvar sem þau væru niðurkomin og í umsjá hvaða hjálparsamtaka sem væri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert