Kappakstursbíllinn gerir víðreist

Kappaksturs- og hönnunarlið Team Spark er fjölmennt.
Kappaksturs- og hönnunarlið Team Spark er fjölmennt. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Kappaksturs- og hönnunarliðið Team Spark við Háskóla Íslands afhjúpaði rafknúna kappakstursbílinn TS17 á Háskólatorgi í dag. Liðið hyggst fara með bílinn í kappaksturs- og hönnunarkeppni stúdenta bæði á Ítalíu og í Austurríki í sumar.

Team Spark hefur hannað og smíðað kappakstursbílinn í vetur. Liðið er skipað verkfræðinemum við Háskóla Íslands og nú í fyrsta sinn nemanda í viðskiptafræði sem kemur að vinnu við viðskiptaáætlun vegna bílsins.

Lið frá Háskóla Íslands hefur tekið þátt í hönnunar- og kappakstursmótum háskólanema allt frá árinu 2011 og oftast farið til Bretlands þar sem keppnin Formula Student fer fram á Silverstone-braut ár hvert. Í fyrra tók Team Spark í fyrsta sinn einnig þátt í Formula SAE Italy í Varano de' Melegari nærri Parma.

Förinni er aftur heitið til Ítalíu í ár en í stað keppninnar á Silverstone halda Team Spark-liðar til Austurríkis þar sem liðið tekur þátt í Formula Student Austria sem fram fer á Formúlu 1 kappakstursbrautinni Red Bull Ring. Þetta kemur fram í tilkynningu. 


Margir voru áhugasamir um kappakstursbílinn.
Margir voru áhugasamir um kappakstursbílinn. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert