Samstíga í fríverslunarmálum

Guðlaugur ásamt Greg Hands.
Guðlaugur ásamt Greg Hands. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur í gær og í dag átt fundi í London með ráðherrum í ráðuneyti, sem fer með úrsögn Breta úr ESB (DExEU), og breska utanríkisviðskiptaráðuneytinu (DIT) þar sem sameiginleg úrlausnarefni vegna úrsagnar Breta úr ESB og framtíðarfyrirkomulag viðskipta landanna voru til umræðu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Á fundi utanríkisráðherra með David Jones, ráðherra í DExEU, kom fram ríkur vilji til að styrkja enn frekar traust viðskiptatengsl þessara nágrannaríkja í kjölfar Brexit. Ráðherrarnir voru sammála um að efla þegar samráð ríkjanna í viðskiptamálum, einnig í málaflokkum á borð við sjávarútvegsmál og umhverfis- og orkumál. Á fundinum kom fram að allar forsendur væru til staðar svo ná mætti skjótum árangri við að semja um framtíðarfyrirkomulag viðskipta eftir að Bretar hafi gengið formlega úr ESB,“ segir í tilkynningunni.  

Guðlaugur ásamt David Jones.
Guðlaugur ásamt David Jones. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Á fundi utanríkisráðherra með Greg Hands, ráðherra í utanríkisviðskiptaráðuneytinu, kom jafnframt fram mikill vilji til samráðs við Ísland fram að formlegri útgöngu svo undirbúa megi jarðveginn fyrir framtíðarviðræður landanna.

„Það er í raun ómögulegt að hugsa til þess að nýjar viðskiptahindranir kunni að rísa milli Evrópuríkja að tveimur til þremur árum liðnum. Slíkt væri úr takti við þróun viðskipta í Evrópu og fríverslunar í heiminum og á fundum mínum í London hefur komið skýrt fram að Bretar og Íslendingar horfa eins á hlutina og vilja vera í fararbroddi þegar kemur að alþjóðlegri fríverslun,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að utanríkisráðherra hafi hitt Hillary Benn, þingmann Verkamannaflokksins og formann Brexit-nefndar neðri deildar breska þingsins. Þar voru útgöngumálin rædd sem og möguleikar á frekara samstarfi ríkjanna tveggja í sameiginlegum hagsmunamálum.

Þá átti Guðlaugur Þór fund með Angus McNeal, þingmann úr Skoska þjóðarflokknum og formanni utanríkisviðskiptanefndar neðri deildar breska þingsins, sem fyrir skömmu birti skýrslu sína um möguleika Breta á fyrirkomulagi fríverslunar eftir útgönguna úr ESB. Í skýrslu þingnefndarinnar er lagt til að Bretar íhugi alvarlega þann möguleika að gerast aðilar að EFTA á ný.

„Þetta voru afar áhugaverðir fundir og jafnvel þótt aðild Breta að EFTA sé einungis ein af mögulegum leiðum sem Bretar hafa haft til skoðunar er ljóst að reynsla og árangur okkar EFTA-ríkjanna af alþjóðlegri fríverslun vekur mikla athygli,“ segir Guðlaugur Þór í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert