Fjórir nýir sérsveitarbílar

Sérsveit ríkislögreglustjóra, Víkingasveitin svokallaða, fékk í byrjun ársins afhentar fjórar bifreiðar af tegundinni Ford Police Interceptor og verða bílarnir teknir í gagnið hver af öðrum á næstu dögum og vikum.

Vonir standa til að tveir verði klárir í vikunni, en ljúka þarf við ýmislegt smávægilegt áður en þeir eru fullbúnir, svo sem smíða í þá vopnaskáp og setja upp talstöðvakerfi. Í hverjum vopnaskáp verða skammbyssur af gerðinni Glock og hríðskotabyssur af gerðinni MP5.

Bílarnir koma að mestu tilbúnir frá Bandaríkjunum og er um að ræða sérstaka tegund ökutækja sem aðeins eru seld til lögreglu. Bílarnir njóta mikilla vinsælda hjá lögregluembættum í Bandaríkjunum, sem og Ford Police Interceptor-fólksbíllinn, en hlutdeild bílanna tveggja er rúmlega 70 prósent af öllum lögreglubílum Bandaríkjanna samkvæmt upplýsingum frá sérsveitinni.

Sérsveitarbílarnir fjórir verða allir komnir á göturnar fyrir sumarið ef áætlanir ganga eftir og koma þeir til með að leysa af hólmi eldri ökutæki sérsveitarinnar.

Notagildi nýju bílanna er talsvert meira en þeirra gömlu því ekki var t.a.m. hægt að nota þá við lífvörslu erlendra þjóðhöfðingja. Hefur sérsveitin því, fram til þessa, þurft að leigja bifreiðar til slíkra verkefna, en slíkt er bæði kostnaðarsamt og óhentugt þar sem útbúa þarf bílaleigubíla sérstaklega fyrir hvert verkefni með tilheyrandi kostnaði.

Stykkið kostar 15 milljónir kr.

Bifreiðarnar kosta hver um sig rétt tæpar 15 milljónir króna og segir Sveinn Ægir Árnason, yfirmaður tækjabúnaðar hjá sérsveitinni, að töluverður sparnaður felist í því að kaupa bílana fullbúna að utan frekar en að láta breyta venjulegum bílum í lögreglubíla. Reiknast embættinu til að um fjórar milljónir sparist á hvern bíl sem keyptur er. Þá fylgja því einnig miklir kostir að sögn Ásmundar Kr. Ásmundssonar, næstráðanda hjá sérsveitinni, að kaupa bíla sem hannaðir eru frá grunni sem lögreglubílar, en bílarnir voru hannaðir í samráði við tíu lögregluþjóna úr tíu ríkjum Bandaríkjanna, og hafa verið í stöðugri þróun síðan þeir voru fyrst kynntir á markað fyrir fimm árum.

Fyrir utan að vera mjög kraftmiklir, eða tæp 400 hestöfl, eru bílarnir afar tæknilegir og búnir ýmsum græjum. Eru þeir m.a. vel nettengdir og nettengingin betri en sú sem var í gömlu bílunum, en tölvubúnaður bílanna er nettengdur. Hurðirnar eru skotheldar og bremsukerfi þeirra gott. Í skottinu má finna staðalbúnað sérsveitarmanna, s.s. „stóra-lykil“ og kúbein sem sérsveitarmenn nota til að brjóta sér leið inn í hús, skotvarnarskjöld, naglamottur og hjartastuðtæki svo dæmi séu tekin. Þá eru einnig í bílunum góðar myndavélar sem taka upp það sem fram fer inni í ökutækinu og fyrir utan það. Myndefnið er svo vistað í hárri upplausn.

Ekki vegna aukinnar hættu

Búast má við því að viðbragðstími sérsveitarinnar styttist eitthvað með tilkomu bílanna enda eru þeir kraftmeiri en þeir gömlu, segir Ásmundur. Spurður hvort kaupin séu til komin vegna aukinnar hættu, hvort sem er af völdum hryðjuverka eða glæpahópa, segir Ásmundur svo ekki vera. Kaupin hafi átt sér langan aðdraganda og er með þeim einfaldlega verið að bæta bílakost sveitarinnar sem hefur verið bágur í samanburði við nágrannaríkin.

Fulltrúar sérsveitarinnar fóru til Chicago í Bandaríkjunum og prufukeyrðu þar eins bíla áður en ráðist var í kaupin sem fara í gegnum Brimborg á Íslandi.

Hefur sérsveitin nú á annan tug bifreiða til umráða, m.a. aðgerðabíla og koma þessir bílar ekki í stað þeirra.

Grár kemur fyrir bláan

Það er þó ekki aðeins bílafloti sérsveitarinnar sem hefur fengið andlitslyftingu heldur mun sérsveitin á næstu dögum skipta út einkennisklæðnaði sínum. Hafa þeir frá upphafi verið í bláum samfestingum að norskri fyrirmynd en fara nú yfir í gráa galla. Á meðfylgjandi mynd má sjá nýju gallana.

Sérsveitir Evrópuríkja hafa á undanförnum árum skipt yfir í græna galla, t.a.m. Svíar og Danir, eða gráa galla líkt og Norðmenn, Bretar og Kanadamenn. „Grár þykir heppilegur litur fyrir okkar umhverfi, þ.e. borgarumhverfið. Þetta er því betri vinnufatnaður fyrir sérsveitarmenn,“ segir Ásmundur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert