Tveir meginstraumar sem takast á

Salvör Nordal, lektor og forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Salvör Nordal, lektor og forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Alþjóðasamvinna er alltaf á krossgötum og á meiri krossgötum nú en oft áður. Þar takast á tveir straumar – sívaxandi hnattvæðing og hins vegar aukin einangrunarstefna í stjórnmálum líkt og þegar hefur komið fram í Bretlandi og Bandaríkjunum, segir Guðmundur Hálfdanarson, forseti hugvísindasviðs og nýskipaður stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

Vísar hann til niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um að ganga úr Evrópusambandinu og kjörs Donald Trump í embætti forseta Bandaríkjanna. Guðmundur var meðal þeirra sem héldu erindi á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar í Norræna húsinu í dag.

Hann segir þetta til marks um ákveðið bakslag frá bjartsýni síðustu áratuga þegar aukin sameining varð í Evrópu og ríki sem áður voru undir hatti Sovétríkjanna litu á Evrópusamvinnu sem skjól. Nú sé þjóðernishyggja meira áberandi sem sé svo ekkert nýtt af nálinni því í löndum eins og Ungverjalandi og Frakklandi megi sjá augljós tengsl við fasisma. Jafnframt hafi svipaðar aðstæður verið uppi í kreppunni miklu á millistríðsárunum.

Fjármálakreppan sé  augljós þáttur í breyttu viðhorfi en um leið sjáist jákvæð áhrif hnattvæðingar, svo sem aukin víðsýni og samvinna sem hafi leitt til aukins friðar og um leið bættrar stöðu flestra en þó ekki allra.

Því misskipting er enn mikil bæði milli ríkja og innan ríkja og með auknu ferðafrelsi, svo sem Schengen-landamærasamstarfinu, gefist fólki kostur á að ferðast en það ferðist ekki allir á sömu forsendum. Því ferðalög ferðamanna eru litin jákvæðum augum á meðan reynt er að stöðva ferðalög flökkufólks sem er að flýja skelfilegar aðstæður heima fyrir.

Mörg vandamálanna hnattræn

Salvör Nordal, lektor og forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, tók í svipaðan streng í fyrirlestri sínum „Heimsborgarakenningar og greinarmunurinn á fullveldi og sjálfstæði þjóðríkis“ þar sem hún vitnaði í kenningar stjórnmálafræðiprófessorsins David Held.

Að sögn Salvarar eru mörg þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir hnattræn – svo sem loftslagsmál og fjármálakreppan. Þessi vandamál verða ekki leyst innan ríkja heldur verður að leysa þau í samvinnu. Ekki sé hægt að takmarka þau við landamæri þjóðríkja.

Afstaða heimsborgara byggir á víðsýni sem meðal annars felst í því að það er siðferðileg skylda okkar að aðstoða fólk sama hvar það býr og um hverja sé að ræða. Mannréttindi eigi að gilda um alla í heiminum og við berum sömu skyldur við alla jarðarbúa.

Salvör segir að þessi heimsborgarahugsjón sé gagnrýnd fyrir að leggja skyldur okkar við okkar nánustu niður á sama hátt og þá sem standa okkur ekki nærri. Margir efist um að það eigi við rök að styðjast.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, umdæmisstjóri UN Women og fv. utanríkisráðherra.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, umdæmisstjóri UN Women og fv. utanríkisráðherra. Ljósmynd Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Á sama tíma og lögð er áhersla á yfirþjóðlega samvinnu eru komnar upp efasemdir um hana, meðal annars vegna fjármálaaflanna og hversu illa hefur gengið að hemja þau. Salvör segir aftur á móti að aldrei hafi verið jafnmikilvægt og nú að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og nú enda sé þróun alþjóðamála og þau vandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir þannig að við verðum að taka þátt. Því þróun lýðræðis innanlands tekur mið af þróun lýðræðis annars staðar. 

Nauðganir helsta vopnið gegn konum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, umdæmisstjóri UN Women og fyrrverandi utanríkisráðherra, fjallaði um konur á flótta á tímum vopnaðra átaka í sínu erindi á ráðstefnunni. Hún segir almenna borgara vera helstu fórnarlömb stríða í dag og oft markmið stríðandi fylkinga að eyða lífi almennra borgara. 

Stríðsátökum dagsins í dag fylgir ófyrirsjáanleg grimmd og ofbeldi sem senda fleiri á vergang en nokkru sinni fyrr. Að sögn Ingibjargar Sólrúnar er nú áætlað að um 65 milljónir jarðarbúa séu á vergangi.

Eitt helsta vopnið gegn konum eru nauðganir. Þær hafa alltaf verið vopn gegn konum en aldrei í jafnmiklum mæli og nú. Nauðgun er ekki bara vopn gegn konunni heldur allri fjölskyldunni segir Ingibjörg Sólrún. Þrátt fyrir að vígasamtök eins og Ríki íslams fylgi afturhaldssömum kenningum varðandi hlut kvenna þá eru um það bil 10% þeirra Evrópubúa sem ganga til liðs við samtökin konur þar sem þeirra hlutverk felst oft í kynlífsþrælkun. 

Ingibjörg Sólrún spyr hvernig hægt sé að vernda konur fyrir vígamönnum og um leið vernda þær fyrir því að ganga til liðs við samtök þeirra. Eitt sem Ingibjörg Sólrún bendir á í fyrirlestri sínum er skortur á konum í friðarviðræðum. Meðal annars þegar rætt er um áætlanir til þess að bæta stöðu þeirra. Hvatt sé til þess að auka fjárframlög Sameinuðu þjóðanna í aðgerðir til handa konum á flótta verulega. 

Gestir á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í Norræna húsinu í …
Gestir á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í Norræna húsinu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Sólrún ræddi meðal annars um ástandið í Sýrlandi og Afganistan þar sem konur og stúlkur verða fyrir hrottalegu ofbeldi, svo sem hópnauðgunum og öðru kynferðislegu ofbeldi. Þær þvingaðar í hjónabönd, seldar í ánauð og eru fórnarlömb mansals. Hún segir að karlar séu mun fjölmennari í hópi flóttamanna sem hafa komið til Evrópu. Algengt sé að karlar fari fyrst af stað og í mörgum tilvikum hafi karlar komist til Evrópu en nú sé leiðin lokuð og konurnar sitji því fastar. Æ fleiri ríki eru að draga úr möguleikanum á fjölskyldusameiningu þannig að konurnar sitja eftir á stórhættulegum svæðum. 

Til að mynda séu núna um 60 þúsund hælisleitendur fastir í Grikklandi á eyjum sem hafa getu til þess að hýsa um sjö þúsund. 

Ingibjörg Sólrún gerði lagasetningu í málefnum flóttamanna og hælisleitenda að umtalsefni og þann skort sem er á kynbundnum áherslum. Þar séu íslensk lög engin undantekning þrátt fyrir að ný útlendingalög hafi tekið gildi í fyrra. Veruleg þörf sé á að því að gera breytingu hér á enda staða kvenna oft verri en karla ekki síst þegar horft er til kynbundins ofbeldis og að setjast að á nýjum slóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert