Vetrarástand á fjallvegum

Vetrarástand er á Holtavörðuheiði.
Vetrarástand er á Holtavörðuheiði. mbl.is/Gúna

Vetrarástand  er á mörgum fjallvegum norðvestanlands, s.s. Steingrímsfjarðarheiði, Hálfdáni, Bröttubrekku, Holtavörðuheiði.

Reiknað er með því að 19-23 metrar á sekúndu verði með kvöldinu og í nótt. Skafrenningur og að auki vaxandi éljagangur og blinda þegar frá líður. Einnig á Öxnadalsheiði í kvöld og nótt, að því er kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hálkublettir eru á Hellisheiði. Ófært og stórhríð er á Holtavörðuheiði og snjóþekja og skafrenningur á Bröttubrekku. Á Svínadal er éljagangur og hálkublettir.

Steingrímsfjarðarheiði er ófær. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á fjallvegum á Vestfjörðum og víða él og skafrenningur. Óveður og hálka er á Mikladal og á Hálfdáni. Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

Á Norðurlandi eru vegir að mestu auðir en þó eru hálka og skafrenningur á Öxnadalsheiði og hálkublettir og éljagangur á Vatnsskarði. Einnig eru hálkublettir á Víkurskarði, Hólasandi og Dettifossvegi.

Greiðfært er að mestu á Austurlandi en hálkublettir á Öxi og hálkublettir og skafrenningur á Fjarðarheiði.

Greiðfært er með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert