Fuglar eftir eigin höfði og engir tveir eins

Listakonan Lára Gunnarsdóttir á vinnustofu sinni heima í Stykkishólmi.
Listakonan Lára Gunnarsdóttir á vinnustofu sinni heima í Stykkishólmi.

Smáfuglarnir á vinnustofu Láru Gunnarsdóttur, myndlistarkonu í Stykkishólmi, bíða þar keikir í röðum eftir að fljúga úr hreiðrinu og suður á bóginn. Útskornir úr birki og málaðir í öllum regnbogans litum munu þeir efalítið sóma sér ljómandi vel á sýningu Handverks og hönnunar í byrjun næsta mánaðar, þaðan sem þeir fljúga í allar áttir ef að líkum lætur.

Eins og svo margt í lífinu, segir Lára Gunnarsdóttir, myndlistarkona í Stykkishólmi, það hafa verið tilviljun að hún fór að tálga alls konar fígúrur og fugla úr tré. Ekkert benti til þess þegar hún fyrir margt löngu stundaði í eitt ár nám í arkitektúr við háskóla á Englandi, og lauk síðan prófi frá grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1983. Þar var áherslan á tvívíð form; tré- og dúkristur, ætingu og silkiþrykk eins og hún vann við næstu árin ásamt vatnslitamálun og teikningu.
Bústnar og sællegar trékerlingar og -karlar í þjóðlegum skrúða.
Bústnar og sællegar trékerlingar og -karlar í þjóðlegum skrúða.


„Eftir námið bjó ég nokkur ár á Ísafirði og síðan í Neskaupstað en fluttist hingað til Stykkishólms fyrir hartnær aldarfjórðungi. Ég var strax drifin í Emblu, menningarfélag kvenna hér í bænum. Konurnar höfðu haft ávæning af að ég væri listakona og fengu mig til að hanna fyrir sig minjagrip sem þær ætluðu að nota sem gjöf frá félaginu þegar svo bæri undir. Ég las mér til í norrænni goðafræði því mér fannst liggja beinast við að búa til litla Emblu og datt í hug að prófa grafíkskurðarjárnin mín og tálga hana út í birkigrein. Ég hafði ekki áður fengist við þrívíð form en upp úr þessu fór ég í auknum mæli að tálga í tré og búa til alls konar fígúrur, aðallega þó fugla síðustu þrjú árin,“ segir Lára, sem í byrjun næsta mánaðar verður með fuglana sína til sýnis og sölu á sýningunni Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Smáfuglarnir bíða þess að fljúga suður á bóginn - til …
Smáfuglarnir bíða þess að fljúga suður á bóginn - til Reykjavíkur.


Fuglarnir tóku völdin

Embla og Askur voru samkvæmt norrænni goðafræði fyrstu manneskjurnar á jörðinni, en Óðinn mun hafa gengið fram á rekavið; álm og ask, blásið í hann lífi og skapað þannig karl og konu. Embla, fyrsta tréfígúran sem Lára skapaði, var aldrei sett á markað en menningarfélagið sá til þess að hún fór býsna víða. Alls konar aðrar fígúrur litu dagsins ljós í kjölfarið. Bústnar trékerlingar í þjóðlegum skrúða og síðan karlar í stíl og margt fleira, sem Lára hefur undanfarið tálgað eftir pöntun. Fuglarnir hafa nefnilega smám saman tekið völdin. Eftirspurnin er slík að þeir nánast fljúga út úr húsinu þar sem þær Sigríður Erla Guðmundsdóttir, leirlistakona, reka sína vinnustofuna hvor og litla sölubúð í sameiningu, Leir7 og Smávinir.

„Ég heillaðist af viðfangsefninu, þótt upphaflega hafi eftirspurnin ráðið töluverðu um að ég fór að tálga fugla í stórum stíl. Mér finnst skemmtilegra að hanna hvern fugl algjörlega eftir mínu höfði og frjálslegra heldur en að dútla við að skera út og mála öll smáatriðin á körlunum og kerlingunum. Þótt ég horfi mikið á fugla þegar ég er að gefa þeim í garðinum mínum, eru þeir ekki fyrirmyndir nema að mjög takmörkuðu leyti. Sumir líkjast að vísu svolítið krumma, en þeir eru fyrst og fremst mínir fuglar, mín sköpuun og málaðir í öllum regnbogans litum,“ segir Lára.

Auk fuglanna tálgar Lára engla sem senda góða strauma.
Auk fuglanna tálgar Lára engla sem senda góða strauma.


Hún notar eingöngu birki úr Vaglaskógi og Hallormsstaðaskógi og þykir miður að geta ekki keypt þurrkaðan viðinn í sinni heimabyggð á Vesturlandi þar sem þó er töluverð gróska í birkiskógum. „Ég leyfi eiginleikum efnisins að njóta sín. Birkið hefur mikinn karakter, sem hjálpar óneitanlega til við sköpunina. Þar sem fuglarnir eru tálgaðir og málaðir, birkið miskræklótt og kvistótt og drekkur mismikið í sig litina eru engir tveir fuglar eins. Allt eru þetta smáfuglar, um 6 til 10 sentimetrar, og yfirleitt málaðir í skærum litum, en innan um og saman við eru líka svartir og brúntóna fuglar því margir vilja fá fuglana í náttúrulegum litum.“

Náttúran og menningararfurinn

Þótt Láru finnist gott að geta verið laus við í vinnunni tekur hún daginn yfirleitt snemma. Hún tálgar og málar á vinnustofu sinni í um átta tíma á dag og stendur aukinheldur vaktina í búðinni á móti Sigríði. Hún segir töluverða traffík ferðamanna á sumrin og núorðið einnig á veturna.

Nytjahlutir. Skálar úr birki og sítróna sem einnig er tálguð …
Nytjahlutir. Skálar úr birki og sítróna sem einnig er tálguð úr tré.


„Náttúran allt um kring er mér uppspretta hugmynda og sömuleiðis menningararfur í handverki liðinna alda. Ýmis verk hafa einnig orðið til vegna áhrifa frá gömlu húsunum hér í bænum,“ segir Lára og kveðst ekki sakna höfuðborgarinnar þar sem hún bjó framan af ævinni. Eða þar til hún fór að fylgja manninum sínum um landið, eins og hún segir. Sá er Ólafur Kristófer Ólafsson, sýslumaður Vesturlands. Börnin þeirra þrjú eru flogin úr hreiðrinu, dóttirin býr í Stykkishólmi, annar sonurinn í Kópavogi, hinn í Kaupmannahöfn.

Lára hefur í áranna rás sýnt ein eða á samsýningum, m.a. tekið þátt í flestum sýningum Handverks og hönnunar frá upphafi eða í rúm tuttugu ár, og fengið mörg verðlaun og viðurkenningar. Til dæmis hlaut hún árið 1998 1. verðlaun í samkeppni sem Handverk og hönnun efndi til í samvinnu við Átak til atvinnusköpunar. „Ég gerði minjagripi í formi gömlu húsanna í Stykkishólmi. Húsin voru úr birki í mælikvarðanum 1:100 og aftan á hvert hús skrifaði ég í stuttu máli sögu hússins og sagði frá byggingarstílnum,“ útskýrir Lára, sem fyrir tveimur árum fékk Skúlaverðlaunin, sem svo eru nefnd eftir Skúla fógeta og veitt árlega á haustsýningu Handverks og hönnunar. Smáfuglar úr birki færðu henni verðlaunin í það sinn.

Veggmynd. Jökull, sem gæti verið Snæfellsjökull að sumri til. Spegilröndin …
Veggmynd. Jökull, sem gæti verið Snæfellsjökull að sumri til. Spegilröndin táknar hafið.


Englar og nytjahlutir

Á vinnustofu Láru umbreytist birkið ekki aðeins í fugla, heldur líka engla af ýmsum stærðum og gerðum, skálar og aðra nytjahluti sem og veggmyndir af eyjum og jöklum. Hún lýkur lofsorði á Handverk og hönnun og segir framtakið hvetja listafólk um allt land til að koma verkum sínum á framfæri, taka þátt í keppni og brydda upp á nýjungum. Og hún talar af reynslu.

„Stundum eru línurnar lagðar og fólk hvatt til að senda muni sem tengjast ákveðnu þema. Veggmyndirnar urðu til út frá skilyrðum sem Handverk og hönnun setti um að hluturinn væri nytjahlutur sem tengdist vatni. Þar sem ég vinn alltaf í tré þurfti ég virkilega að brjóta heilann um útfærsluna. Loks ákvað ég að tálga út lágmyndir og hafa á þeim spegil sem táknaði vatn eða hafflötinn. Notagildið felst í því að hægt er að nota spegilinn þegar maður er að mála á sér varirnar svo dæmi sé tekið.“

Embla úr norrænu goðafræðinni var frumraun Láru í tréskurðarlistinni.
Embla úr norrænu goðafræðinni var frumraun Láru í tréskurðarlistinni.


Litríku fuglarnir sem bíða í röðum eftir að fljúga úr hreiðrinu í Stykkishólmi og á sýningu Handversk og hönnunar eru hins vegar skrautmunir – og nytsamir sem slíkir.

Á vefsíðu Láru, www.smavinir, sem jafnframt er sölusíða, eru myndir af verkum listakonunnar og nánari upplýsingar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert