Hraðsiglingar yfir Faxaflóa

Ferjan fer hratt yfir flóann og opnar nýja möguleika.
Ferjan fer hratt yfir flóann og opnar nýja möguleika. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sæferðir ehf. stefna að því að byrja ferjusiglingar milli Akraness og Reykjavíkur í seinni hluta maí. Upphafið ræðst m.a. af því hvenær ferja sem leigð verður til verkefnisins kemur til landsins. Reiknað er með að siglingin yfir flóann taki að jafnaði um 25 mínútur hvora leið.

Tvö tilboð bárust í verkefnið „Flóasiglingar“ sem Reykjavíkurborg og Akraneskaupstaður buðu út. Sæferðir áttu hagkvæmara tilboðið og var gengið að því. Samkvæmt útboðsgögnum eiga siglingarnar að hefjast eigi síðar en 1. júní næstkomandi. Um er að ræða tilraunaverkefni til sex mánaða.

„Við erum gríðarlega ánægð að hafa fengið verkefnið og finnst þetta mjög spennandi,“ segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, um áform þessi í Morgunblaðinu í dag. Hann sagði gert ráð fyrir þremur ferðum yfir Faxaflóa hvern virkan dag. Mögulegt verður að bæta inn aukaferðum um helgar.

„Við höfum valið glæsilegt skip í verkefnið og munum leigja það með kauprétti,“ sagði Gunnlaugur. Um er að ræða hraðskreiða tvíbytnu sem leigð verður erlendis frá. Hún á að geta siglt á milli Reykjavíkur og Akraness á 20-30 mínútum, allt eftir sjólagi og aðstæðum.

„Við erum gríðarlega spennt fyrir þessu verkefni,“ sagði Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi. Hann sagði að siglingarnar kæmu þeim vel sem sæktu vinnu yfir Flóann og eins yrði þetta nýr valkostur fyrir ferðamenn.

„Á Akranesi er hægt að fara í frábæra hjólreiðatúra, fara á Langasand, skoða vitann og við erum með glæsilegan golfvöll. Sömuleiðis munu Skagamenn geta skotist í bæinn og notið þess sem Reykjavík hefur upp á að bjóða,“ sagði Sævar.

Í næstu viku á að kynna ýmislegt sem er í undirbúningi í tengslum við þetta nýja verkefni, Flóasiglingar milli Reykjavíkur og Akraness.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert