Náðu þriðja sæti í sterkri danskeppni

Sverrir Þór og Ágústa Rut á dansgólfinu í Blackpool með …
Sverrir Þór og Ágústa Rut á dansgólfinu í Blackpool með þriðju verðlaun. Ljósmynd/Linda Heiðarsdóttir

Sverrir Þór Ragnarsson og Ágústa Rut Andradóttir, sem eru tíu ára, stóðu sig með miklum sóma í danskeppni í Blackpool á Englandi fyrr í vikunni. Þau dönsuðu sig inn í úrslit í Jive undir 12 ára og lentu þar í þriðja sæti af 108 pörum.

Linda Heiðarsdóttir, danskennari og móðir Ágústu Rutar, segir að keppnin í Blackpool sé sú stærsta sem er haldin í heiminum fyrir þennan aldurshóp. Hún segir árangur Sverris Þórs og Ágústu Rutar sérstaklega góðan vegna þess að þau eru aðeins 10 ára og kepptu þau því við marga eldri keppendur. Þau eiga allt næsta ár eftir í þessum aldursflokki, þ.e. undir 12 ára, að sögn Lindu.

„Ég keppti þarna þegar ég var tíu ára. Maður náði aldrei svona langt,“ segir hún og hlær.

Dansað saman í fjóra mánuði

Aðspurð segir Linda að árangurinn hafi komið verulega á óvart, bæði sökum ungs aldurs þeirra og vegna þess að þau byrjuðu að dansa saman fyrir aðeins fjórum mánuðum en þau æfa í dansskóla Jóns Pétur og Köru. Sverrir Þór og Ágústa Rut hafa þó verið að dansa hvort í sínu lagi síðan þau voru fimm og sex ára.

„Þetta er plús fyrir svona litla krakka að komast svona langt. Þau fyllast alveg sjálfstrausti við þetta,“ segir hún.

Sverrir Þór og Ágústa Rut í miðjunni.
Sverrir Þór og Ágústa Rut í miðjunni. Ljósmynd/Linda Heiðarsdóttir

Ekkert stress

Spurð hvort krakkarnir hafi ekkert verið stressaðir segist Linda ekki hafa tekið eftir því. „Ég held að það hafi verið meira stress í foreldrunum. Þau voru ótrúlega afslöppuð yfir þessu. Þau höfðu aðallega gaman af þessu. Auðvitað voru smá fiðrildi í maganum en það var ekkert að sjá á þeim.“

Hún bætir við að pör frá Úkraínu hafi lent í fyrsta og öðru sæti í Jive-keppninni en oft eru það pör frá Austur-Evrópu sem ná langt í þessari keppni þar sem bestu dansarar heimsins mætast.

Keppnin í Blackpool hófst á mánudaginn og stendur yfir í fimm daga. Í kvöld verður haldin keppni á milli þjóða og þar munu Sverrir Þór og Ágústa Rut dansa ásamt þremur öðrum íslenskum pörum í sínum aldurshópi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert