Nýtt hús Vigdísarstofnunar skoðað

„Ég fæ alltaf næstum því hjartslátt eða straum niður bakið því þetta er svo fallegt hús,“ segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, um að koma í nýtt hús Vigdísarstofnunar við Suðurgötu sem verður vígt í dag. mbl.is skoðaði bygginguna á dögunum og ræddi við Vigdísi ásamt arkitektum byggingarinnar.

Húsið mun hýsa Miðstöð erlendra tungumála og Vigdís segist vona að erlendir gestir muni heimsækja það til að sjá hvernig tungumáli þeirra er gert skil á tungumálasýningum sem verða settar upp í húsinu.

Hún segist vera sérstaklega hrifin af því hvernig salurinn í húsinu er útfærður en hann er gjarnan kallaður hjartað af þeim sem starfa þar vegna rauða litarins á ytri veggjum hans. Hægt er að ganga á milli hússins og undir Suðurgötuna að Háskólatorgi. Arkitektarnir Haraldur Örn Jónsson og Kristján Garðarsson eru sérstaklega ánægðir með hvernig náðist að byggja húsið við hlið Loftskeytastöðvarinnar án þess að skyggja á hana of mikið.

Við opnun hússins í dag verður slegið upp menningarveislu tengdri tungumálum. Hátíðin hefst í Háskólabíói kl. 15 í dag. Yfirskrift hennar er „Tungumál ljúka upp heimum“ og þar munu fjölmargir innlendir listamenn og kórar flytja tónlist og önnur verk á ótal tungumálum.

Að lokinni hátíðardagskrá verður gengið að nýbyggingunni þar sem Vigdís Finnbogadóttir og Jón Atli Benediktsson bjóða gestum að ganga í bæinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert