„Afgreitt samkvæmt tollalögum“

Úr fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli.
Úr fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Þetta var bara afgreitt samkvæmt tollalögum, það er bara einföld skýring,“ segir Valur Kristinsson, aðstoðaryfirtollvörður á Keflavíkurflugvelli.

Mbl.is ræddi í gær við farþega sem kom frá Tenerife á Spáni með vél flugfélagsins Primera sem þurfti að lenda á Egilsstöðum vegna slæms veðurs í Keflavík. Þegar vélin hélt aftur til Keflavíkur daginn eftir var farþegum vélarinnar meinað að versla í fríhöfninni. Mikil óánægja var með þetta á meðal margra þeirra eftir erfitt ferðalag.  

Boeing 737-800 farþegaþota flugfélagsins Primera Air.
Boeing 737-800 farþegaþota flugfélagsins Primera Air.

Búið að tollafgreiða

Valur útskýrir málið þannig að búið var að tollafgreiða flugvélina á Egilsstöðum og farþegarnir voru farnir í land og búnir að gista eina nótt. Þess vegna var ekki hægt að tollafgreiða vélina aftur. Engar undartekningar sé hægt að gera á þessu.

„Það hefur komið fyrir að farþegar hafa beðið í klukkustund eða tvær í vélinni og svo hefur henni verið snúið aftur til Keflavíkur. Þá er þetta allt annar handleggur,“ segir Valur.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skilyrði að ganga framhjá fríhöfninni

Spurður hvort engin mistök hafi verið gerð segist hann mögulega hafa gert mistök með því að leyfa farþegunum að koma inn í flugstöðina í Keflavík. Þar hafi þeir blandast öðrum farþegum sem voru að koma með öðrum vélum.

„Isavia hefur samband við mig og spyr hvað við getum gert fyrir þessa farþega sem lentu í þessum hremmingum og hvernig við gætum gert þetta eins þægilegt fyrir þá úr því sem komið var. Þeir stungu upp á því að þeir fengju að koma beint inn í töskusal og fara ekki upp í gegn eins og vaninn er. Ég samþykkti það með því skilyrði að þeir gengju framhjá fríhöfninni, “ greinir Valur frá.

„Okkur fannst þetta vera manneskjulegasta nálgunin við farþegana. Að öðrum kosti hefðu þeir þurft að fara beint í rútu og út fyrir svæðið, þar sem þetta er ekki innanlandsflugstöð,“ segir hann.

„Auðvitað er leiðinlegt að þetta skuli koma fyrir en þetta gerist ekki mjög oft. Svona eru lögin og við höfum engar heimildir til að breyta þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert