Tókust á um framlög til þróunarmála

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi að samkvæmt nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verði dregið mun meira úr framlögum til þróunarmála en síðasta ríkisstjórn gerði.  Einnig standi til að fækka samstarfslöndum í Afríku.

Nefndi hún að alþjóðlegar skuldbindingar Íslands kveði á um að fylgt verði markmiði Sameinuðu þjóðanna um að innríki leggi fram 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Prósentutalan sé aftur á móti á sama stað hérlendis og hún var árið 2011.

Hún spurði Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra, hvort það sé gert með hans stuðningi.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni svaraði þannig að ekki sé verið að draga úr framlögum til þróunaraðstoðar. Hann sagði að hlutfall af landsframleiðslu væri ekki að lækka. „Á sama tíma er landsframleiðslan í örum vexti sem þýðir að við erum að setja stóraukna fjármuni í þróunaraðstoð í krónum mælt,“ sagði Bjarni en tók fram að miðað við þau markmið sem stjórnvöld hafa sett sér séu þau langt frá því að vera komin í mark.

Hann bætti við að framlögin hafi farið lægst niður í 0,2% á árunum 2011 til 2012. Núna séu þau komin í 0,25% og verði sjö milljarðar króna samkvæmt nýrri fjármálaáætlun. 

Rósa sagði þá að Bjarni væri að skýla sér á bak við krónutölur á sama tíma og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands snúist um prósentur af vergum þjóðartekjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert