Icelandair umhverfisvottað

Starfsemi allra félaga Icelandair Group hefur fengið alþjóðlega umhverfisvottun. Icelandair, stærsta dótturfélag samstæðunnar, hefur fengið annars stigs umhverfisvottun Alþjóðasambands flugfélaga (IATA) og er félagið fjórða flugfélagið í heiminum til að hljóta hana. Hin eru Finnair, Latin American Airlines og South African Airlines.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir að rekja megi aðdragandann að þessum tímamótum til þess þegar félagið hélt stjórnarfund á Akureyri árið 2012 í tilefni af 75 ára afmæli félagsins. Stofnárið sé miðað við árið 1937 þegar Flugfélag Akureyrar var stofnað.

„Þá tók stjórn félagsins ákvörðun um að stefnt skyldi að umhverfisvottun fyrir alla okkar starfsemi. Við vissum að flugreksturinn gæti orðið flókinn. Það varð raunin. Markmiðið var að öll fyrirtækin yrðu vottuð fyrir árslok 2016. Það tókst að öllu leyti nema að eitt lítið félag sat eftir sem lauk vottun á dögunum. Það var VITA,“ segir Björgólfur.

Minni eldsneytisnotkun

Meðal áfanga í umhverfismálum félagsins er að í fyrra minnkaði eldsneytiseyðsla Icelandair úr 3,79 lítrum í 3,70 lítra á hverja 100 kílómetra. Miðað er við hvert flugsæti.

Björgólfur segir aðspurður að þessum árangri hafi verið náð í samvinnu við flugmennina. „Menn hafa breytt áherslum. Aðflug og fráflug skiptir máli og hvernig vélarnar eru keyrðar. Það er kannski flogið aðeins hægar, eða aðfluginu breytt. Þótt það sé misjafnt eftir flugvöllum er það svo að á flestum flugvöllum er hægt að fara í öðruvísi aðflug en áður var gert og allt þetta skiptir verulega miklu máli,“ segir Björgólfur.

Spurður hvernig Icelandair Group hyggst nýta sér vottunina segir Björgólfur að félagið muni leggja áherslu á það í markaðssetningu að vera með umhverfisvottun á allri starfseminni. „Það er að mínu áliti auðvitað ákveðið þrekvirki að ljúka því fyrir flugfélagastarfsemina sem slíka og við munum reyna að nýta það og halda því á lofti að félagið sé umhverfisvottað. Við höfum trú á því að viðskiptavinir séu orðnir meðvitaðri um umhverfismál og horfi til þess hvort félög eru umhverfisvottuð eða ekki þegar þeir velja hvar þeir ætla að eiga viðskipti. Það er mjög jákvætt að fólk lætur sig umhverfismál sífellt meiru varða.“

Líka gott fyrir viðskiptin

„Markmið stjórnar var að vera leiðandi í umhverfismálum, enda væri það í sjálfu sér gott fyrir viðskiptin. Sífellt fleiri viðskiptavinir horfa til þess að fyrirtækjum sé umhugað um umhverfið og stundi viðskipti á sjálfbæran hátt. Síðan skiptir það ekki síður máli – og það er reynsla okkar í þessu ferli – að þetta eyðir sóun og bætir reksturinn.“

Umhverfisvottun IATA, sem Icelandair hlaut, byggir á svonefndum ISO 14001 staðli, og lauk félagið fyrra stigi vottunarinnar í byrjun árs 2015. Seinna stigi vottunarinnar er nú lokið af hálfu IATA. Umhverfisvottun sem byggir á ISO 14001-staðlinum nær nú til allra félaga Icelandair Group: Flugfélags Íslands, Fjárvakurs, Icelandair Hotels, Icelandair, Loftleiða Icelandic, Icelandair Cargo, Icelandair Ground Services (IGS), Iceland Travel og VITA. Nýtt umhverfisstjórnunarkerfi var innleitt til að ná þessu markmiði í rekstrinum.

Skipuðu umhverfisstjóra

Spurður hvernig Icelandair Group hafi náð þessum áfanga segir Björgólfur að félagið hafi farið af stað með umhverfishóp með fulltrúum frá hverju fyrirtæki. Umhverfisstjóri var ráðinn til Icelandair Group og í hverju fyrirtæki innan samstæðunnar var sérstakur ábyrgðaraðili með umhverfismálunum.

Það hafi verið mikilvægt að fá starfsfólkið til að velta fyrir sér leiðum til þess að minnka eyslu. Margt smátt gerir eitt stórt, litlir hlutir eins og að slökkva ljós þegar það logar á öllum ljósaperum í fundarherbergi.

Hann bendir á að á Natura, sem er eitt af hótelum Icelandair Hotels, hafi rafmagn á gistinótt minnkað um 21% á fimm árum. Rafmagnsnotkun hjá Flugfélagi Íslands hafi verið 9% minni á fyrsta fjórðungi en á sama árstíma í fyrra. Þá hafi meðaltal sorps á hverja gistinótt á hótelum félagsins farið úr 1,4 kílóum árið 2014 í 1,2 kíló í fyrra og verið dregið úr notkun merkingarskyldra efna hjá tækjasviði IGS um 40% frá 2014. Félagið hafi leitað efna sem hafa síður spillandi áhrif á umhverfið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »