Níu þingmenn í fullri vinnu við málþóf

Dr. Haukur Arnþórsson kynnti niðurstöður úr rannsókn sinni á tölulegum …
Dr. Haukur Arnþórsson kynnti niðurstöður úr rannsókn sinni á tölulegum gögnum Alþingis frá 1991 til 2015. Yfirskrift fundarins var „Skipulagsleysi, málþóf og gæði lagasetningar: Raunmyndir af störfum Alþingis“. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Fundartími Alþingis er tæplega 50% lengri heldur en í nágrannalöndum okkar þó afgreiðsla þingmála sé svipað mikil. Í einföldu máli má því segja að málþóf taki um þriðjung af fundartíma Alþingis. Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum rannsóknar Dr. Hauks Arnþórssonar stjórnsýslufræðings á gögnum Alþingis yfir 24 ára tímabil. Hann fór yfir niðurstöðurnar á fundi í Háskóla Íslands í gær.

Á fundinum sagði Haukur meðal annars að gögnin sýndu að hér væri bæði veikt skipulag á þinginu og málþóf stundað í talsverðum mæli. Talsvert er deilt um hlutverk málþófs og hefur meðal annars verið bent á að það sé varúðarventill fyrir stjórnarandstöðuna til að stöðva umdeild mál. Haukur sagði að í raun væri málþófið verkfæri sundrungar og sátta í þinginu – sjálf baráttuleiðin. Aftur á móti teldi hann mun skilvirkari aðferðir í boði og benti til Norðurlandanna og sagði að í Danmörku væri t.d. möguleiki fyrir andstöðuna til að virkja þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt væri þó vandmeðfarið og væri í raun einskonar „kjarnorkuvopn“ sem væri aðeins notað til þrauta.

Verklagið skilar sér í ólöglegu athæfi þingmanna

Í heild eru virkar vinnustundir þeirra 63 þingmanna sem starfa á Alþingi um 88 þúsund á hverju ári. Þar af má telja að vinnustundir ráðherra í ráðuneytum séu um 15 þúsund á ár sem þýðir að virkar vinnustundir á vegum Alþingis eru um 73 þúsund á ári að sögn Hauks. Miðað við fundartíma Alþingis er meðalvinnustundafjöldi í þingsal um 46 þúsund klukkustundir, eða um 63% af vinnustundum þingmanna.

Þingmönnum ber samkvæmt lögum að mæta á þingfundi, en Haukur segir að með þessum mikla fundartíma skapist aðstæður þar sem þingmenn geti ekki sinnt öðrum skyldum sínum eins og að lesa frumvörp og fylgigögn, ræða við almenning og fjölmiðlamenn, mæta á ráðstefnur bæði innanlands og erlendis o.fl. sem fylgir starfinu. Niðurstaðan sé því að alþingismenn mæti ekki á alla þingfundi sem sé í raun ólöglegt.

Oft er fámennt í þingsal þótt þingmenn eigi að sitja …
Oft er fámennt í þingsal þótt þingmenn eigi að sitja þingfundi. Haukur segir þetta afleiðingu af verklagi þingsins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Minni skilvirkni hér en í nágrannalöndum

Haukur benti á að í Danmörku væri hlutfall þingfunda af vinnutíma þingmanna mun lægra en hér á landi eða um 37%. Í Svíþjóð og Finnlandi væri hlutfallið miklu lægra. Þetta skapast að einhverju leiti af mismunandi frjálsræði í þingunum, en hér á landi getur þingið gert stórvægilegar breytingar á lagafrumvörpum alveg þangað til það er samþykkt og með stuttum fyrirvara meðan algengara sé erlendis að vinna við stærri frumvörp eigi sér stað í ráðuneytum og skili sér minna breytt í gegnum þingið.

Sagði Haukur skipulag mála hér vera ófullburðugra en í nágrannalöndunum og að þegar kæmi að skipulagi og starfsáætlun væri hún alls ekki jafn fastmótuð hér og úti. Hér á landi væri dagskrá þingsins meðal annars ekki föst, þingfundir ekki tímasettir fyrirfram og mál ekki endilega framkvæmd í röð samkvæmt auglýstri dagskrá.

Styttri ræður en mun fleiri eftir breytingar

Árið 2007 var gerð breyting á þingskapalögum sem hafði meðal annars áhrif á langar ræður stjórnarandstöðunnar sem höfðu verið notaðar við málþóf. Niðurstöður rannsóknar Hauks sýna að þrátt fyrir breytinguna hafi málþóf ekkert minnkað. Eðli þess hafi einungis breyst og í staðinn fyrir langar ræður og málþóf sem einn þingmaður gat haldið úti geti andstaðan í dag skapað málþóf með skipulagi sem byggist á fjölda andsvara og óundirbúnum ræðum.

Meðalræðutími fór úr því að vera 6 mínútur í upphafi könnunartímabilsins í undir 2,5 mínútur í lok þess. Þar sem heildarræðutími í þinginu hélst nokkuð óbreyttur er því ljóst að ræðufjöldi hefur aukist mikið, en löngum ræðum fækkað. Fór Haukur því næst yfir ræðufjölda við hvert frumvarp á öllu tímabilinu, en hann var 24 með staðalfrávikið 80. Það þýðir að gríðarlega mikill munur er á milli þess  hversu margar ræður eru fluttar við hvert frumvarp. Þannig voru flestar ræður fluttar þegar rætt var um frumvarp fjármálaráðherra um Icesave-samninga í október 2009. Í heild voru þær 3.202 og tóku 135 klukkustundir.

Eftir breytingar á þingskapalögum árið 2007 styttist ræðutími mikið en …
Eftir breytingar á þingskapalögum árið 2007 styttist ræðutími mikið en ræðum fjölgaði á móti. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Haukur sagði óskilvirknina á þingi vera áhyggjuefni. Þrátt fyrir að jafn mörgum frumvörpum væri afkastað hér á landi og í nágrannalöndum okkar væri tímalengd þingfunda mun meira og í samfélagi þar sem tími væri alltaf að verða dýrmætari liti málþóf verr og verr út. Krafa fólks væri að hlutir væru settir málefnalega fram í stuttum svörum.

Málþóf mikil blóðtaka fyrir stjórnarandstöðuna

Nokkrar umræður urðu í lok fyrirlesturs Hauks um hlutverk málþófsins og hvort slíkt væri í raun neikvæður hlutur. Sagði Haukur að hvernig sem litið væri á málið væri málþóf óskilvirkt og finna þyrfti önnur tæki fyrir stjórnarandstöðuna. Sagði Haukur að eins mikil blóðtaka og málþóf væri fyrir Alþingi, þá kæmi það verst niður á stjórnarandstöðunni sem eyddi gríðarlegum tíma í þingsal sem annars gæti farið í að sinna eftirlitshlutverkinu betur, meðal annars við að lesa yfir fleiri lög.

Til að setja umfang málþófsins í samhengi sagði hann að í raun væri það full vinna fyrir níu þingmenn að stunda það málþóf sem væri í gangi að meðaltali á Alþingi. Það væri því hægt að fækka um níu þingmenn og halda sömu afköstum.

Lagði Haukur að lokum mikið upp úr því að stjórn og andstaða myndu ná samkomulagi til að tryggja lýðræðislegan stöðugleika milli ríkisstjórna. Það sýndi sig að þegar sameiginlegt nefndarálit kæmi með málum væru meiri líkur á að mál yrðu samþykkt og færri breytingar væru síðar gerðar á slíkum lögum. Slíkt kallaði aftur á móti á breytt vinnubrögð þannig að samkomulag kæmi til fyrr í ferlinu. Þá sagðist hann telja að neyðarventill eins og möguleiki til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu gæti reynst öflugt tæki til að knýja á um þessi bættu samskipti.

mbl.is