Raunútgjöld til LSH hafi verið stóraukin

Raunútgjöld til LSH hafi verið stóraukin, segir félags- og jafnréttismálaráðherra.
Raunútgjöld til LSH hafi verið stóraukin, segir félags- og jafnréttismálaráðherra.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að umræðan á ársfundi Landspítalans um fjárframlög til Landspítala – háskólahjúkrahúss sé á villigötum. Staðreyndin sé að raunútgjöld til LSH hafi verið stóraukin á undanförnum árum.

Þorsteinn sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að LSH hafi sett fram áætlanir um það hversu mikið fjármagn spítalinn þyrfti.

„Mér finnst það mjög villandi framsetning af hálfu spítalans, að orða það svo, þegar kröfum LSH er ekki mætt að fullu, að segja að um niðurskurð sé að ræða. Það er augljóst að verið er að auka raunútgjöld til spítalans og þegar horft er yfir lengra tímabil má sjá að það er búið að endurreisa fjármögnun spítalans úr þeirri miklu lægð sem var hér eftir efnahagshrun. Það hefur orðið veruleg aukning á raunútgjöldum til LSH á undanförnum árum og stefnt er að því að svo verði áfram,“ sagði ráðherra.

Mun auka verulega á hagræði

Þorsteinn segir að samkvæmt hans úttekt og áætlunum, sem styðj-ist við ársreikninga LSH frá 2006 og við ríksfjármálaáætlun til næstu fimm ára, komi skýrt fram að áfram er verið að auka raunútgjöld til LSH. (Sjá línurit).

„Því til viðbótar er verið að tryggja fjármagn til nýs spítala, sem mun auka verulega á hagræði Landspítalans til lengri tíma litið og efla þar með getu hans til þess að mæta þeim áskorunum sem fram undan eru, eins og öldrun þjóðarinnar,“ sagði félagsmálaráðherra. Þorsteinn segir að auk þess sé verið að veita umtalsverðum fjármunum í aðra heilbrigðisþjónustu, eins og heimaþjónustu, til að gera öldruðum betur kleift að búa lengur heima, öldrunarþjónustuna sjálfa, uppbyggingu þjónusturýma og uppbyggingu heilsugæsluþjónustunnar.

„Skortur á fjármagni til þessarar þjónustu, hefur iðulega verið sagður bitna á Landspítalanum og kosta hann fjármuni og hamla fráflæði. Því má vænta þess, að þegar verið er að efla þessa þætti heilbrigðisþjónustunnar, að það muni leiða til umtalsverðs hagræðis hjá LSH, sem gerir honum þá kleift að efla þjónustu sína enn frekar,“ sagði Þorsteinn.

Í þágu heilbrigðiskerfisins

Hann segir að enginn deili um mikilvægi þess að setja heilbrigðisþjónustuna í í forgang, og það sé skýr stefna ríkisstjórnarinnar að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins, ekki síst í þágu hjarta þess, sem sé Landspítalinn.

„Við vitum vel að okkar bíða umtalsverðar áskoranir, því að þjóðin er að eldast mjög hratt á næstu 10 til 15 árum. Með sama hætti og eðlilegt er að gera kröfur til stjórnmálamanna, þá verður auðvitað líka að gera kröfur til Landspítalans og stjórnenda hans, að sýna ráðdeild í rekstri og leita alltaf leiða til aukins hagræðis.

Þegar þetta línurit er skoðað, er ekki hægt að halda því fram að verið sé að svelta Landspítalann, eins og stjórnendur spítalans hafa haldið fram. Það er ljóst að það eru fjölmörg tækifæri til þess að gera enn betur í rekstri LSH. Stjórnendur spítalans fóru m.a. ágætlega yfir það á fundi með fjárlaganefnd í desember og nefndu sem dæmi áform um að hraða útskrift sjúklinga, draga úr yfirvinnu, fjölga fullum stöðugildum og svo mætti áfram telja,“ sagði Þorsteinn Víglundsson enn fremur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »