Skipun nefndarinnar í vinnslu

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins vonast til þess að nefndin komist á laggirnar …
Forstjóri Samkeppniseftirlitsins vonast til þess að nefndin komist á laggirnar sem allra fyrst þar sem hún er brýn til þess að fylgja sáttinni eftir. Morgunblaðið/Ernir

Skipun eftirlitsnefndar sem tilkynnt var um í kjölfar sáttar Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts í febrúar er í vinnslu. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir það ekki óeðlilegt að ekki sé búið að skipa nefndina tíu vikum eftir að sáttin var kunngjörð.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir í samtali við mbl.is að nú sé verið að fara yfir mögulegar tilnefningar í nefndina. Hann segir það ekki óeðlilegt að skipun nefndarinnar  taki smá tíma. „En við vonum að hún komist á laggirnar sem allra fyrst þar sem hún er brýn til þess að fylgja sáttinni eftir,“ segir Páll.

Félag atvinnurekenda vakti athygli á því á heimasíðu sinni í dag að tíu vikum eftir að sáttin náðist væri nefndin ekki enn skipuð og hvatti félagið til þess að bætt verði úr því hið fyrsta. Samkvæmt ákvæðum sáttarinnar hefur eftirlitsnefndin það hlutverk að fylgja sáttinni eftir, taka við kvörtunum og taka ákvarðanir í samræmi við fyrirmæli sáttarinnar. Nefndin er skipuð af Íslandspósti, en tilnefningu nefndarmanna skal bera undir Samkeppniseftirlitið til samþykktar eða synjunar. Tveir af þremur nefndarmönnum skulu vera óháðir Íslandspósti.

Sam­keppnis­eft­ir­litið kynnti 17. febrúar aðgerðir til að styrkja sam­keppn­isaðstæður á póst­markaði en Ísland­s­póst­ur hef­ur skuld­bundið sig til þess að hlíta ít­ar­leg­um skil­yrðum og gera breyt­ing­ar á starf­semi sinni sem vinna gegn sam­keppn­is­höml­um.

Sam­keppnis­eft­ir­litið taldi að rekja mætti sam­keppn­is­höml­urn­ar til einka­rétt­ar á dreif­ingu áritaðra bréfa und­ir 50 g og sterkr­ar stöðu Ísland­s­pósts á póst­markaði og tengd­um mörkuðum.

Miðuðu að því að bæta samkeppnisumhverfið

Með ákvörðun Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins voru leidd­ar til lykta at­hug­an­ir sem varða mögu­leg­ar sam­keppn­is­hindr­an­ir á póst­markaði. At­hug­an­ir þess­ar áttu ræt­ur að rekja til all­margra kvart­ana og ábend­inga sem borist hafa frá keppi­naut­um Ísland­s­pósts á liðnum árum.

Miðuðu ráðstafanirnar að því að bæta sam­keppn­is­um­hverfið á þessu sviði til fram­búðar. Um leið átti að vinna gegn því van­trausti sem grafið hef­ur um sig gagn­vart Ísland­s­pósti á póst­markaði.

Meðal þess sem mælt er fyr­ir um er að til­tek­in sam­keppn­is­starf­semi Ísland­s­pósts verði ávallt rek­in í aðskild­um dótt­ur­fé­lög­um. Í þessu skyni þarf Ísland­s­póst­ur að færa hraðpóstþjón­ustu sína út úr móður­fé­lag­inu inn í aðgreint dótt­ur­fé­lag.

Þá er mælt fyrir um skýra aðgrein­ingu inn­an Ísland­s­pósts á milli söluþátt­ar starf­sem­inn­ar og kostnaðarút­hlut­un­ar og að skipuð verði sér­stök eft­ir­lits­nefnd sem fylg­ir sátt­inni eft­ir, tek­ur við kvört­un­um og tek­ur ákv­arðanir í sam­ræmi við fyr­ir­mæli sátt­ar­inn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert