Spá töluverðri snjókomu

Það snjóar hressilega eftir hádegið.
Það snjóar hressilega eftir hádegið. mbl.is/Rax

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar varar við töluverðri snjókomu á Hellisheiði, Þrengslum, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði eftir hádegið samfara mjög kólnandi veðri á Suðvestur- og Vesturlandi.

Snjókoman verður mest á milli 12 og 15 en él eftir það.  Einnig um miðjan dag á Vatnaleið, Bröttubrekku og Holtavörðuheiði.

Búast má við snjókomu og lélegu skyggni á fjallvegum S- og V-lands um tíma, en styttir upp síðdegis. Aftur líkur á snjókomu og lélegu skyggni á fjallvegum seinni partin á morgun og talsverðri rigningu á SA-landi,“ segir í athugasemd á vef Veðurstofu Íslands.

Í öllum landshlutum eru langflestir vegir auðir eins og er. Á Vestfjörðum er þó snjóþekja á Dynjandisheiði og þæfingsfærð þaðan niður í Trostansfjörð en hálka er á Hrafnseyrarheiði. Á Austurlandi er hálka á Mjóafjarðarheiði.

Betri tíð framundan

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í samtali við mbl.is að fyrst og fremst sé um að ræða hálku en ekki ófærð. Hann segir að áhyggjurnar stafi fyrst og fremst af því að margir séu komnir á sumardekk.

Þá varar hann einnig við því að næstudaga geti myndast hálkublettir á höfuðborgarsvæðinu snemma morguns sem geti t.d. reynst hættulegir fyrir hjólreiðafólk. „En það verður betri tíð strax eftir helgi, reyndar mun betri tíð bæði fyrir hjólreiðafólk og aðra,“ segir Einar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert