13 metrum hærri en deiliskipulag leyfir

Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. Lóðin er í stöllum og …
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. Lóðin er í stöllum og athugasemdir Skipulagsstofunnar snúa að byggingum á hærri stalli lóðarinnar. Þær eru hærri en deiliskipulag heimilar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Byggingar sem bætt var inn á lóð United Silicon eftir að skýrsla um umhverfismat var gerð eru ekki í samræmi við þær deiliskipulagsbreytingar sem bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar halda ranglega fram að jafngildi tilkynningu um breytingar á umhverfismati. Þetta segir Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunnar í samtali við mbl.is. Hærri byggingin sem um ræðir er rúmum 13 metrum hærri en nýja deiliskipulagið leyfir.

Fjallað var um það í fréttum RÚV í gær að byggingu sem er helmingur af hæð Hallgrímskirkju hafi verið bætt inn á lóð United Silicon í Helguvík eftir að skýrsla um umhverfismat var kynnt.

Ásdís Hlökk segir að í svörum Reykjanesbæjar, sem RÚV greindi frá í gær, séu rangfærslur. „Bæði það að tilkynning um deiliskipulag geti verið ígildi breytingar á umhverfismati. Það er einfaldlega rangt,“ segir hún. „Svo er heldur ekki rétt að byggingarnar séu í samræmi við þessar deiliskipulagsbreytingar.“

38 metrar í stað 25

Breytingarnar sem gerðar voru lúta að öðru fyrirkomulagi bygginga en gert var ráð fyrir. „Fyrst og fremst erum við að gera athugasemd við hæð bygginga,“ segir Ásdís Hlökk. Lóð United Silicon í Helguvík sé á stöllum og mikill hæðarmunur á þeim. „Spurningarnar lúta að byggingum á efri stallinum. Þar er hámarkshæð samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi 25 metrar og þessar byggingar sem um ræðir fara annars vegar 5 metra yfir þau hæðarmörk og hins vegar rúma 13 metra.“

Spurð hvort þau vandmál sem komið hafa upp varðandi framkvæmdir United Silicon í Helguvík kalli á breytingar á verklagi af hálfu Skipulagsstofnunnar, segir Ásdís Hlökk svo ekki vera miðað við hlutverk stofnunarinnar í dag. „Það er auðvitað hlutverk sveitarfélagsins að veita byggingaleyfi og sjá til þess að leyfi sé í samræmi við skipulag og fylgja því svo eftir að byggt sé í samræmi við leyfið.  Umhverfisstofnun veitir svo starfsleyfið og fylgir svo því eftir að starfsleyfisumsóknin sé í samræmi við það sem fram kom við mat á umhverfisáhrifum.“

Engu að síður séu vandamálin sem upp hafa komið varðandi framkvæmdirnar í Helguvík mikilvægur lærdómur um það sem getur farið úrskeiðis. „Við þurfum að átta okkur á því hvað veldur, því það er óásættanlegt að framgangur málsins sé eins og verið hefur í þessu tilviki.“

Þarf að endurskoða leyfið

Ásdís Hlökk telur því ekki við regluverkið að sakast í þessu tilfelli, en segir stofnunina lítið geta gert þegar vandamál koma upp vegna þess að leyfi séu ekki samræmi við forsendur, eða þegar ekki er framkvæmt í samræmi við leyfið. Skipulagsstofnun hafi enda engin refsiúrræði. „Þá eru úrræði okkar stofnunnar afskaplega takmörkuð. Þau eru nánast bundin við að skrifa reiðileg bréf,“ segir hún.

„Í þessu tilviki, þar sem um er að ræða rekstur sem er að hefjast og það á eftir að byggja upp fleiri áfanga þá er hins vegar ekki búið að ljúka afgreiðslu. Það blasir það líka við að það hafa orðið það miklar breytingar frá upphaflegum forsendum að það þarf að einhverju marki að endurskoða matið á umhverfisáhrifum og þá þá endurskoða leyfið í kjölfarið.“

Mál United Silicon og fleiri sem upp hafa komið hafa hins vegar, að hennar sögn, sýnt fram á að full ástæða sé til þess að Skipulagsstofnunin hafi einhver úrræði sem hún geti beitt. „Við erum núna í miðjum klíðum við að innleiða í íslenska löggjöf tilteknar breytingar, sem byggja á lögum um Evróputilskipun, og ein af þeim er krafa um að stjórnvöld hafi úrræði við brotum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert