Lögðu milljónir inn á reikning eiganda

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Vitni í aðalmeðferð embættis héraðssaksóknara gegn fyrrverandi eiganda Strawberries greindu frá því að þau hafi lagt háar upphæðir inn á einkareikning hans er þau sóttu staðinn.

Eitt vitni kvaðst hafa lagt yfir tvær milljónir króna inn á reikning hans. Starfsmaður kampavínsstaðarins hafi sagt honum að gera það. Vitnið sagðist hafa fengið aðgang að tölvu á staðnum en velti því ekkert sérstaklega fyrir sér af hverju það var látið leggja inn á reikning eigandans fyrrverandi. Um var að ræða viðskipti þar sem greitt var fyrir vöru og þjónustu. 

Annað vitni var spurt út í tengsl þess við eignarhaldsfélagið Læk sem rak Strawberries. Sagðist það hafa komið þangað við einstaka sinnum. Vitnið sagðist einnig hafa verið boðið af starfsmönnum staðarins að leggja fjárhæðir inn á persónulegan reikning eigandans fyrrverandi. Millifærslurnar hafi farið fram jafnóðum á staðnum.

Eigandinn fyrrverandi sagði að þeir peningar sem hafi farið í gegnum reikning hans hafi farið meira eða minna aftur í gegnum Strawberries í verktakagreiðslur til þeirra kvenna sem þar störfuðu.

Strawberries.
Strawberries. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hann var spurður hvort þeir sem sóttu staðinn hafi straujað greiðslukort sín í gegnum posakerfi staðarins. Svaraði hann því þannig að stundum hafi fólk komið og beðið hann um að skipta peningum á greiðslukortum sínum í reiðufé. „Sumir eru hræddir við konurnar sínar,“ sagði hann og bæti við hann hefði skipt töluverðum peningum í gegnum posa. Einnig nefndi hann að þeir sem hafi fengið reiðuféð hafi verið að „„tipsa“ út um allt“ og hafi „slegið um sig“.

Eigandinn var einnig spurður hvort hann hafi notað peninga sem komu frá Strawberries til að fjármagna kaup á íbúð til eigin afnota. Því neitaði hann.

Skattaskýrslur tengdar málinu fyrir árin 2010 til 2013 voru bornar undir manninn. Fyrir dómi kvaðst hann eiga erfitt með að sjá skýrslurnar vegna þess að hann væri ekki með gleraugu. Hann sagðist ekki hafa búið til eina einustu skattaskýrslu og benti á endurskoðanda sinn. Endurskoðandinn hafi séð um alla pappírana og sjálfur hafi maðurinn eingöngu safnað þeim saman.

Einnig sagðist eigandinn fyrrverandi ekki hafa fengið aðgang að skjölum og göngum til að geta svarað fyrir sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert