Partíklúbbur, ekki vændishús

Strawberries.
Strawberries. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrrverandi eigandi kampavínsklúbbsins Strawberries  segir að þar hafi fólk komið saman til að skemmta sér. Þar hafi ekki verið stundað vændi.

„Ég myndi kalla þetta partíklúbb,“ sagði hann. „Ekki vændishús.“

Aðalmeðferð í máli hans fer hún fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.Hann er ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot fyrir að hafa vantalið virðisaukaskattsskylda veltu upp á rúmlega 230 milljónir króna og ekki staðið skil á 52,6 milljóna virðisaukaskattsgreiðslu. Þá er hann einnig ákærður fyrir að telja ekki fram tekjur upp á 64 milljónir og standa skil á 28 milljóna tekjuskatti vegna þeirra. 

Hann neitaði sök við þingfestingu málsins. 

Spurður út í stöðu sína í dag sagði hann að hún væri mjög slæm. Hann væri öryrki og óski engum að lenda í þessari stöðu.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Hann bætti því að svo hefði virst sem lögreglan og saksóknarar væru að reka mál gegn honum í gegnum fjölmiðla. „Að minnsta kosti í hverri viku í heilt ár snerist [umfjöllunin] um mig og hvernig ætti að tækla mig. Þetta virtist koma frá lögreglunni og saksóknara.“

Hann nefndi einnig að engar sannanir hafi komið fram um að vændi hafi farið fram á staðnum.

Segir lögreglumenn hafa farið ránshendi

Hann mótmælti jafnframt upptöku sem var gerð á eignum hans. „Ég er á síðasta punkti með að verða algjörlega gjaldþrota og að allt fari á uppboð.“

Við þingfestingu málsins sakaði lögmaður mannsins lögreglu um að hafa gert upptæka ýmsa skartgripi við húsleit hjá honum þegar málið var rannsakað. Meðal annars hafi verið um að ræða hringa og nælur sem væru milljóna virði. Lögmaðurinn sagði að samkvæmt lögreglu væru munirnir týndir og kallaði maðurinn þetta ekkert annað en þjófnað af hálfu lögreglunnar.

Við aðalmeðferðina í morgun sagði eigandinn fyrrverandi að svo virtist sem hópur lögreglumanna hafi farið ránshendi um íbúðina og tekið allt það sem þeim datt í hug. Nefndi hann einnig að á verkstæði hans hafi 75 þúsund krónur sem þar voru í skúffu horfið. „Ég veit ekki hvort lögreglumaður hafi tekið það,“ sagði hann og bætti við: „Mér var bara haldið afsíðis. Þeir tóku allt það sem þá langaði í.“

Maðurinn var spurður út í skattframtöl fyrir árin 2010 til 2013 og benti hann alfarið á endurskoðanda sinn sem hafi annast vinnu við gerð þeirra.

Hann bar einnig við minnistapi. „Ég lenti í gæsluvarðhaldi á sínum tíma og fékk áfall,“ sagði hann. Við það hafi minni hans hrunið. „Ég er búinn að eiga við alls konar veikindi að stríða eftir það.“

„Það er ómögulegt muna hvaða gögn ég lét hann hafa fyrir sex árum.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert