Fréttatíminn í þrot á næstu dögum

Síðasta tölublað Fréttatímans kom út 7. apríl.
Síðasta tölublað Fréttatímans kom út 7. apríl. Skjáskot/Frettatiminn.is

Tekin hefur verið ákvörðun um setja útgáfufélag Fréttatímans í þrot. Enn hafa ekki allir starfsmenn blaðsins fengið greidd laun sín fyrir marsmánuð. Framhaldið verður í höndum skiptastjóra þrotabúsins.

Þetta staðfestir Valdimar Birgisson, framkvæmdastjóri Fréttatímans, í samtali við mbl.is. „Sú ákvörðun liggur fyrir. Fyrirtækið verður sett í þrot á næstunni.“

Síðasta tölublað Fréttatímans kom út 7. apríl. Þá hafði hluti starfsmanna ekki enn fengið greidd laun fyrir marsmánuð. Gunnar Smári Egilsson, einn stærsti eig­and­inn, út­gef­andi og ann­ar rit­stjóri blaðsins, hafði þá stigið til hliðar og hætt afskiptum af útgáfunni.

Forsvarsmenn blaðsins sögðu í kjölfarið að reynt yrði að endurskipuleggja reksturinn og endurreisa blaðið. Nú er ljóst, að sögn Valdimars, að þær tilraunir hafa ekki borið árangur. „Endurskipulagningin hefur ekki gengið. Það munu ekki nýir aðilar koma að útgáfunni.“

Gunnar Smári skrifaði á Facebook-síðu sína í síðustu viku að nú þegar bank­inn hafi „tekið til sín það sem hann hafði tryggt með veðum munu all­ar eig­ur bús­ins, þegar fé­lagið fer í gjaldþrot, renna til starfs­manna. Þeir hafa for­gangs­kröf­ur í all­ar eig­ur blaðsins og úti­stand­andi reikn­inga.“ 

Valdimar segir að ekki hafi enn tekist að greiða öllum starfsmönnum fyrirtækisins laun fyrir marsmánuð. Framhaldið hvað það varðar verði væntanlega í höndum skiptastjóra þrotabúsins þegar hann hefur verið skipaður.

„Það eru vonbrigði að ekki hafi tekist að reisa blaðið við,“ segir Valdimar, eins og unnið var að síðustu vikur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert