Stofnaði lífi vegfarenda í augljósan háska

Héraðssaksóknari fer fram á að Tesla-bifreið mannsins verði gerð upptæk …
Héraðssaksóknari fer fram á að Tesla-bifreið mannsins verði gerð upptæk vegna brota mannsins. Mynd úr safni.

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært karlmann fyrir almannahættubrot og líkamsárás af gáleysi með ofsaakstri á 690 hestafla Tesla-bifreið sinni á Reykjanesbraut í tvígang í fyrra. Maður sem slasaðist við seinna atvikið krefur manninn um eina milljón í skaðabætur. Sagt er frá málinu á vef RÚV. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Maðurinn er ákærður í seinna atvikinu sem átti sér stað 20. desember fyrir að hafa ekið bifreiðinni á allt að 183 km/klst. hraða í vesturátt á Reykjanesbraut við Hafnarfjörð. Vísar RÚV í ákæru málsins þar sem segir að hann hafi tekið fram úr fjölda bíla og minnstu munað að árekstur yrði. Við Hvassahraun ók maðurinn svo á afturhorn annars bíls þannig að sá bill hafnaði utan vegar. Skallaði ökumaður þess bíls stýrið, missti meðvitund um stund og hlaut áverka. Sá maður krefst þess að fá eina milljón í skaðabætur.

Segir í ákærunni að maðurinn hafi með akstri sínum stofnað lífi og heilsu hins ökumannsins og annarra vegfarenda í augljósan háska, en akstursskilyrði voru ekki mjög góð, blaut akbraut, hált og slæmt skyggni.

Í hinu atvikinu sem átti sér stað í ágúst í fyrra er þess krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar, verði sviptur ökuréttindum og að bíllinn verði gerður upptækur vegna sektar sem maðurinn fékk vegna vítaverðs aksturs. Er hann sagður hafa ekið á 148 km/klst. hraða á Reykjanesbrautinni, en maðurinn hefur ekki fallist á að greiða sekt vegna málsins.

RÚV segir manninn áður hafa verið tekinn fyrir hraðakstur, en samtals 10 hraðakstursmál mannsins eru í kerfinu hér á landi og eitt í Danmörku. Flest eru frá síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert