Bjarni braut jafnréttislög

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, braut jafnréttislög í starfi sínu sem fjármálaráðherra þegar hann skipaði karlmann en ekki konu í embætti skrifstofustjóra skrifstofu opinberra fjármála 31. ágúst í fyrra. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar jafnréttismála sem var birtur í dag.

Í úrskurðinum kemur fram að kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að skipa karl í embættið en hún taldi sig vera hæfari en karlinn sem var skipaður.

Kærði taldi að á grundvelli umsóknargagna, skýrslu hæfnisnefndar sem mat kæranda og þann sem skipaður var jafn hæfa og viðtala þeirra með ráðherra eftir að skýrslan lá fyrir, hafi hæfasti einstaklingurinn verið skipaður til að gegna embættinu.

Í úrskurði kærunefndar segir að nefndin hafi talið að umrædd viðtöl hefðu ekki verið til þess fallin að leiða í ljós að sá sem var skipaður hafi verið hæfari til að gegna embættinu en kærandi. Kynjahlutföll í embættum skrifstofustjóra hjá kærða hafi verið konum í óhag. Þar sem hæfnisnefnd hafði talið kæranda vera í það minnsta jafn hæfa og þann er skipaður var taldi kærunefnd jafnréttismála að kærði hefði með skipan í embættið brotið gegn lögum.

„Þegar allt þetta er virt telur kærunefndin að kærði hafi ekki sýnt fram á með viðhlítandi gögnum að viðtölin með ráðherra hafi leitt í ljós að sá er skipaður var hafi verið hæfari til að gegna embættinu en kærandi. Verður því að leggja til grundvallar þá niðurstöðu hæfnisnefndar að þessir tveir umsækjendur hafi verið jafn hæfir til að gegna embættinu,“ segir í úrskurðinum.

Þar segir einnig að leiddar hafi verið líkur að því að kærði hafi mismunað kæranda á grundvelli kynferðis hennar og þykir kærði ekki hafa sýnt fram á aðrar ástæður sem hafi legið þar til grundvallar. „Bar því kærða, með vísan til 18. gr. og 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, að skipa umsækjanda af því kyni er á hallaði. Braut kærði með ákvörðun sinni gegn umræddum ákvæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert