Næg sumarvinna fyrir nema um land allt

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. Ljósmynd/Steinar H.

Ekki er talin þörf á átaki vegna sumarstarfa nemenda. Atvinnuástandið er svipað og fyrir hrun. Vinnumálstofnun blæs í staðinn til átaks vegna langtímaatvinnulausra og fólks með skerta starfsorku. Nægur mannauður er í landinu að mati forstjóra Vinnumálastofnunar sem hvetur fyrirtæki til hlúa að honum.

Vinnumálastofnun hefur undanfarin sex ár staðið fyrir átaki vegna sumarstarfa námsmanna. Verkefninu verður ekki framhaldið í sumar vegna góðs atvinnuástands. Þetta segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. Fjármunir sem annars hefðu farið í verkefnið verða nýttir til þess að aðstoða atvinnuleitendur með skerta starfsorku og þá sem lengi hafa verið utan vinnumarkaðar.

„Við höfum undanfarin sex ár verið með sérstakt verkefni og fjármagn til þess að hvetja opinberar stofnanir og sveitarfélög að ráða til sín námsmenn á sumrin. Að okkar mati er atvinnuástandið það gott að allir geta fengið vinnu. það er ekki þörf fyrir átakið lengur. Við finnum ekki fyrir öðru en að þetta góða atvinnuástand sé um allt land,“ segir Gissur.

Atvinnurekendur hlúi betur að innlendu vinnuafli

Að sögn Gissurar er atvinnuleysi með lægsta móti nú, „það er svipað og fyrir hrun og mikil eftirspurn er eftir fólki á vinnumarkaði. „Við ætlum að nota það fjármagn sem áður var nýtt í sumarstörf námsmanna og einbeita okkur að þeim hópi atvinnuleitenda sem hafa skerta starfsgetu eða standa ekki jafnvel að vígi og aðrir þegar kemur að atvinnuleit,“ segir Gissur.

„Við einbeitum okkur nú að því að fá fyrirtækin til þess að skipuleggja vinnulagið þannig að fólk sem þarf stuðning komist inn á vinnumarkaðinn. Þegar eftirspurnin er mikil víkki menn rammann og gefi tækifæri. Nógur er mannauðurinn á Íslandi,“ segir Gissur og bendir atvinnurekendum á að hlúa að honum áður þeir hugi að innflutningi erlends vinnuafls.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert