Sterk viðbrögð á heimsfrumsýningu myndar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið

Guðmundur Einarsson (t.v.) og Geirfinnur Einarsson. Þeir hurfðu báðir sporlaust …
Guðmundur Einarsson (t.v.) og Geirfinnur Einarsson. Þeir hurfðu báðir sporlaust á áttunda áratugnum.

„Við fengum svakalega fín og sterk viðbrögð við myndinni og í kjölfar þriggja sýninga á henni sköpuðust líflegar umræður,“ segir Margrét Jónasdóttir, framleiðandi hjá Sagafilm, um heimildamynd um Guðmundar- og Geirfinnsmálin, Out of thin air, sem var heimsfrumsýnd á stærstu heimildaþáttahátíð Kanada, Hot Docs, í vikunni. Margrét segir að mest spennandi verði þó að frumsýna myndina hér á landi í haust.

Myndin er samstarfsverkefni Sagafilm og Mosaic Films í London. Leikstjóri hennar er Dylan Howitt og framleiðandi í London er Andy Glynne.

Myndin byggir að hluta til á gömlu myndefni frá áttunda áratugnum og nýjum leiknum atriðum sem leikstýrt var af Óskari Jónassyni. Tónlist gerði BAFTA-verðlaunahafinn Ólafur Arnalds.

Heim­ild­amynd­in sam­an­stend­ur meðal ann­ars af leikn­um atriðum í leikstjórn Óskars …
Heim­ild­amynd­in sam­an­stend­ur meðal ann­ars af leikn­um atriðum í leikstjórn Óskars Jónassonar. Mynd/​Sagafilm-MosaicFilms

Augljós áhugi

Um þúsund manns sáu myndina í Kanada í vikunni. „Það var alveg augljós áhugi á efni myndarinnar,“ segir Margrét sem var viðstödd sýningarnar. Hún segir að þar sem Guðmundar– og Geirfinnsmálin séu flókin og umfangsmikil hafi verið ánægjulegt að finna að myndin, sem er 90 mínútna löng, virðist hafa komið viðfangsefninu vel til skila. „Áhorfendum fannst þetta ótrúlegt mál. Það mátti heyra á spurningum þeirra.“

Myndin er í raun tvískipt. Í fyrri hluta hennar er farið yfir málið sjálft en í þeim síðari er lögð áhersla á minnisvafaheilkennið, sem dr. Gísli Guðjónsson fjallaði m.a. um í skýrslu í tengslum við málin árið 2013. Minnisvafaheilkenni er ástand þar sem fólk fer að vantreysta verulega eigin minni. Þetta hefur þær afleiðingar að það veldur mikilli hættu á að það reiði sig á ytri áreiti og það sem er gefið í skyn, til dæmis við yfirheyrslur.

Áhugaverðar umræður sköpuðust um þennan þennan þátt myndarinnar eftir sýningar hennar að sögn Margrétar.

Dylan Howitt, leikstjóri Out of thin air, svarar spurningum áhorfenda …
Dylan Howitt, leikstjóri Out of thin air, svarar spurningum áhorfenda á heimildamyndahátíðinni HotDocs í Kanada.

Sýnd á RÚV og Netflix

Evrópufrumsýningin á Out of thin air verður á alþjóðlegu heimildaþáttahátíðinni SheffDocFest í Sheffield á Englandi. Hátíðin fer fram dagana 9.-14. júní. Tvö málþing á hátíðinni verða tengd myndinni og tileinkuð innihaldi hennar.

Myndin verður sýnt á RÚV í haust og fer svo í heimsdreifingu á Netflix.

„Við erum alveg í skýjunum með fyrstu viðbrögð við myndinni. Það verður hins vegar mest spennandi að frumsýna myndina hér á Íslandi, þar sem hér eru margir sem þekkja þessi mál afar vel. Væntanlega munu einhverjir sakna þess að ekki er farið nákvæmlega í smáatriði á þáttum málsins sem mikið hafa verið í umræðunni hér í tengslum við þessi mál bæði þá og nú.“

Margrét Jónasdóttir, framleiðandi hjá Sagafilm, var viðstödd sýningar Out of …
Margrét Jónasdóttir, framleiðandi hjá Sagafilm, var viðstödd sýningar Out of thin air í Kanada. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sterkt myndmál

Margrét segir að það sé sýn leikstjórans Dylans Howitt sem ráði för og því séu efnistökin ef til vill önnur en ef Íslendingur hefði leikstýrt. „Það er hins vegar styrkur myndarinnar að hann tekur mjög ákveðna stefnu í myndinni eins og þá að láta frásögnina aðeins lifa í meðförum þeirra sem voru tilbúnir að koma í viðtöl og þeirra sem hafa á einn eða annan hátt tengst málunum. Eins er myndmálið mjög sterkt í myndinni og því hlökkum við aðstandendur myndarinnar mjög til að heyra viðbrögðin þegar að því kemur.“

Hvað var raunverulegt?

Andy Glynne, sálfræðingur og annar aðalframleiðandi myndarinnar segir í viðtali sem birt er á vefnum Realscreen að Guðmundar- og Geirfinnsmálin hafi samstundis náð taki á sér er hann las fyrst um þau á vef BBC. Þáttur minnisins og þar með játninganna, hafi honum þótt sérstaklega áhugaverður. „Hvað var raunverulegt og hvað var ekki raunverulegt?“ spyr hann.

„Það sem við reyndum að gera var að gera þetta ekki að sögu um réttarmorð. Þetta er ekki mynd byggð á rannsóknarblaðamennsku. Við vorum ekki að reyna að komast að niðurstöðu um hver gerði hvað, sakleysi eða sekt. Það sem við vildum fjalla um var minnið og skeikulleiki þess.“

Við tökur á leiknum atriðum myndarinnar Out of thin air.
Við tökur á leiknum atriðum myndarinnar Out of thin air. Mynd/​Sagafilm-MosaicFilms

Landslagið í stóru hlutverki

Tekin voru viðtöl við 24 við gerð myndarinnar. Þeir sem unnu að myndinni reyndu að gæta hlutleysis og að sögn Glynne tókst með því að halda góðum tengslum við viðfangsefnið.

Glynne segir að fagurt landslag Íslands leiki mikilvægt hlutverk í myndinni. Eitt stærsta vandamálið sem kvikmyndagerðarmennirnir stóðu frammi fyrir var nokkuð óvenjulegt: Það þurfti að bíða eftir snjókomu.

„Þessi vetur var einn sá hlýjasti í Íslandssögunni síðustu 200 ár,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert