Sást til flórgoða á Rauðavatni

Flórgoðinn synti hinn spakasti á Rauðavatninu í gærkvöldi.
Flórgoðinn synti hinn spakasti á Rauðavatninu í gærkvöldi. Ljósmynd/Agnar Björnsson

Glöggur fuglaáhugamaður kom auga á flórgoða í þokunni sem var við Rauðavatn í gærkvöldi. Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segir flórgoðann vera frekar sjaldgæfa sjón á Rauðavatni. „Þetta sé sá tími sem þeir geta verið á ferðinni,“ segir Jóhann Óli.  Flórgoði hafi hins vegar ekki orpið á Rauðavatni frá því skömmu eftir aldamótin 1900.

„Flórgoðinn hefur haldið sig lengi við Ástjörn í Hafnarfirði, segir hann. Þar hafi flórgoðinn jafnvel tórt áfram þegar hrun varð í stofninum um miðja síðustu öld. „Upp úr síðustu aldamótum fóru síðan að sjást merki þess að stofninn væri að rétta úr kútnum aftur.“

Sérvitur fugl og árásargjarn

Í kjölfarið hafi flórgoðinn líka sést líka við Urriðavatn í Garðabænum og á Vífilstaðavatninu. „Síðan voru flórgoðar á Elliðavatni síðasta haust, sem eru líklega komnir af Vífilstaðavatni.“

Flórgoðinn lifir á hornsílum og byggir sér flothreiður, yfirleitt í …
Flórgoðinn lifir á hornsílum og byggir sér flothreiður, yfirleitt í starabreiðu við bakkann. Ljósmynd/Agnar Björnsson

Flórgoðinn er algengastur á Mývatni og er meira en helmingur af stofninum þar. „Hann er sérvitur og lifir á hornsílum,“ segir Jóhann Óli og kveður flórgoðann geta verið árásargjarnan fugl sem til að mynda ráðist á mink í stað þess að flýja undan honum.

Flórgoðinn byggir sér flothreiður, yfirleitt í starabreiðu við bakkann og er fjölgun í stofninum væntanlega ástæða þess að fuglinn er nú að dreifa sér á fleiri vötn þar sem hann vill verpa í dreifðum byggðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert