Engin skömm við nauðungarvistunina

„Ég komst yfir skömmina með nauðungarvistunina og geðdeildina eftir þriðju maníuna,“ segir Kristinn Rúnar Kristinsson sem vill sjá nauðungarvistunum fækkað. Of algengt sé að úrræðinu sé beitt í heilbrigðiskerfinu. Hann segir það hafa verið stórt og mikilvægt skref að komast yfir skömmina. „Auðvitað eru fordómar enn þá en þeir eru að deyja út. Það er rosalega asnalegt að vera með fordóma,“ segir Kristinn í samtali við mbl.is.   

Í myndskeiðinu segir Kristinn Rúnar frá reynslu sinni af nauðungarvistun. 

Í þrígang hefur hann verið lokaður gegn vilja sínum á geðdeild við Hringbraut en hann er sannfærður um að í tveimur tilfellum hafi það ekki verið nauðsynlegt. Kristinn var greindur með geðhvörf árið 2009 og var í kjölfarið lagður inn á deild en hann segir lækni hafa platað sig. „Ég er þarna inni í þrjár vikur og er sprautaður niður með valdi sem ég hef ekki enn þá jafnað mig á.“ 

Kristinn Rúnar hélt erindi á ráðstefnu um mannréttindi fólks með geðraskanir sem haldin var í HR í vikunni. Þar ræddi hann um reynslu sína af geðhvörfunum og nauðungarvistuninni en Sigríður Andersen dómsmálaráðherra var á meðal þeirra sem hlýddu á erindið.

Geðhjálp hefur einnig vakið athygli á því að nauðsynlegt sé að taka til endurskoðunar reglur um þvingaða meðferð. Réttindagáttin er vefur sem er rekinn af samtökunum til að auðvelda fólki með geðraskanir að kynna sér réttindi sín. 

Þrjár maníur

Kristinn veiktist fyrst árið 2009 og svo aftur á árunum 2014 og 2015. Hann segir maníuna sem hann fór í árið 2014 hafa verið þá trylltustu og viðurkennir að þá hafi verið hægt að réttlæta nauðungarvistunina. Eftir að hafa fengið sig fullsaddan af vanþróðaðri umferðarmenningu hér á Íslandi reyndi hann að taka málin í sínar eigin hendur og byrjaði að stýra umferðinni við Smáralindina. „Þá uppfylli ég skilyrðin fyrir því að vera nauðungarvistaður þá er ég að koma fólki í hættu og sjálfum mér líka,“ segir Kristinn.

Árið 2015 vakti Kristinn athygli þegar hann sýndi Free the nipple-átakinu samstöðu og var nakinn í miðbænum. Myndir af Kristni nöktum birtust á netmiðlum sem hann segir að hafi verið sárt en hann segir að hann hafi ekki verið sér eða öðrum hættulegur og því hafi ekki verið þörf á nauðungarvistun.

Kristinn Rúnar hefur lagt sitt af mörkum til að opna umræðuna um geðsjúkdóma og heldur úti vefnum kristinnrunar.com þar sem hann hefur skrifað opinskáa pistla um veikindi sín. Þá hefur hann birt myndskeið af sjálfum sér í maníu á youtube sem sjá má hér að neðan.

mbl.is