Gjaldtaka brýn í Vatnajökulsþjóðgarði

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þörf Vatnajökulsþjóðgarðs til að innheimta þjónustugjöld til að standa straum af nauðsynlegri uppbyggingu og þjónustu er brýn,“ segir meðal annars í greinargerð með nýju lagafrumvarpi sem Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi, hún felur meðal annars í sér heimild til þess að innheimta þjónustugjöld í Vatnajökulsþjóðgarði. Vísað er í því sambandi til þess að slík gjöld hafi um nokkurt skeið verið innheimt í Þingvallaþjóðgarði með góðum árangri.

Frétt mbl.is: Rafræn rukkun í þjóðgarðinum

„Fjölgun gesta í Þingvalla- og Vatnajökulsþjóðgörðum undanfarin ár hefur haft í för með sér mikið álag á náttúru og innviði þjóðgarðanna. Gjaldtaka sem fylgir ytri vexti er mjög þýðingarmikill þáttur í því að uppbygging í þjóðgörðunum svari þeim kröfum sem gerðar eru til móttöku síaukins gestafjölda og þjónustu við hann auk þess að tryggja öryggi gesta og að vernda viðkvæma náttúru þjóðgarðanna fyrir ágangi og koma í veg fyrir frekari skemmdir á henni,“ segir ennfremur í greinargerð með frumvarpinu.

Fram kemur ennfremur að heildarinnheimta vegna þjónustugjalda í Þingvallaþjóðgarði hafi numið um 250 milljónum króna á síðasta ári og að þjóðgarðurinn gerði ráð fyrir að þær verði allt að 270 milljónir króna á yfirstandandi ári. Tekjur af þjónustugjöldum hafi verið varið til nauðsynlegrar uppbyggingar og þjónustu og svo verði áfram. Þrennt komi helst til varðandi þörf Vatnajökulsþjóðgarðs til þess að innheimta þjónustugjöld. Fyrir það fyrsta hafi gestafjöldi í Skaftafelli tífaldast undanfarin ár með tilheyrandi álagi.

Þörf á mikilli uppbyggingu á jörðinni Felli

Ennfremur hafi Vatnajökulsþjóðgarði verið falin umsjá jarðarinnar Fells, sem nær yfir hluta Jökulsárlóns, og þess vænst að jörðin verði færð formlega undir þjóðgarðinn innan tíðar. „Þar er þörf á uppbyggingu frá grunni sem að öllum líkindum mun reynast mjög kostnaðarsöm. Leiða má að því líkur að nauðsynleg uppbygging á Felli, þ.e. bílastæði, gestastofa, salerni o.fl., muni taka allnokkur ár.“ Þá sé í þriðja lagi mikil uppbygging við Dettifoss sem ekki sé enn lokið sem og þörf á ýmsum öðrum framkvæmdum innan þjóðgarðsins.

„Byggja þarf upp göngustíga og salernisaðstöðu víða í þjóðgarðinum auk þess sem aukin viðvera landvarða er nauðsynleg. Ekki er auðvelt að gera nákvæma áætlun um tekjur Vatnajökulsþjóðgarðs af þjónustugjöldum á fyrrgreindum þremur stöðum þar sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um innheimtuna og gjaldskrá er ekki frágengin. Þegar tekið er tillit til fjölda bifreiða sem átt hafa leið um svæðin undanfarin ár má þó ætla að innheimta af bílastæðagjöldum gæti numið allt að 200 m.kr. á ári verði innheimtan með sambærilegum hætti og í Þingvallaþjóðgarði. Gera má ráð fyrir að sú tala hækki nokkuð á næstu árum með fjölgun gesta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert