Ótrúlegasta rusli hent í Heiðmörk

Pokunum hafði verið fleygt rétt við stíginn.
Pokunum hafði verið fleygt rétt við stíginn. mynd/Baldur Bragason

Allt of algengt er að fólk losi sig við ýmiss konar úrgang í miklu magni á víðavangi eða útivistarsvæðum eins og til dæmis í Heiðmörk. Sigurður Hafliðason, áhaldahússtjóri áhaldahúss Garðabæjar, kannast vel við þetta vandamál en hreinsunarhópar á vegum bæjarins hafa meðal annars hirt upp heilu eldhús- og baðinnréttingarnar við göngustíga í Heiðmörk á síðustu árum.

Sigurður segir sérstaklega mikið um það á vorin að fólk losi sig við úrgang og rusl með þessum hætti, enda margir þá í hinni hefðbundnu vorhreingerningu. Hann telur líklegt að fólk fari þessa leið til að sleppa við að greiða gjald fyrir losun úrgangs hjá Sorpu. En dæmi eru líka um að fólk losi sig við vafasaman úrgang sem það vill líklega síður fara með í Sorpu, af augljósum ástæðum.

Mynd/Baldur Bragason

Vegfarandi á göngu í Heiðmörk í morgun gekk til að mynda fram á tugi svartra ruslapoka sem fleygt hafði verið við Heiðmerkurveg rétt við Urriðavöll í landi Garðabæjar. Þegar hann kíkti í nokkra poka sá hann glitta í gróðurhúsalampa, líkt og gjarnan eru notaðir við kannabisræktun.

Sigurður hafði ekki fengið þennan ákveðna úrgang í hús þegar blaðamaður hafði samband, en sé grunur um saknæmt athæfi hafa starfsmenn áhaldahússins samband við lögreglu sem tekur úrganginn til skoðunar.

Mynd/Baldur Bragason

Aðspurður segir Sigurður starfsmenn bæjarins aldrei hafa staðið sóða að verki við losun úrgangs, en það hafi þó komið fyrir að reikningar stílaðir á eigendur hafi fundist í ruslinu, og þá hefur verið haft samband viðkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert