Strikamerkin lóðrétt en ekki lárétt

AFP

Félag atvinnurekenda hefur sent erindi til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar sem farið er fram á það að fyrirhugaðri reglugerð um drykkjarvöruumbúðir verði breytt þannig að ekki verði lengur gerð krafa um að strikamerki á drykkjarvöruumbúðum verði lóðrétt en ekki lárétt.

Félagið telur þetta fela í sér algerlega órökstudda viðskiptahindrun sem gæti sett innflutning á drykkjarvörum í uppnám. Fram kemur í fréttatilkynningu að félagið hafi andmælt breytingunni og slíkt hið sama hafi evrópsk samtök áfengisframleiðenda gert. Bent er á að ekki sé gerð slík krafa í upphaflegu regluverki frá Evrópusambandinu sem reglugerðin sé byggð á.

„Vegna smæðar markaðarins er nánast útilokað að erlendir framleiðendur myndu fást til að sérmerkja þær vörur sem flytja ætti til Íslands svo krafa reglugerðarinnar yrði uppfyllt. Þá yrðu innflytjendur að endurmerkja allar flöskur með ærnum tilkostnaði og vinnu. Ljóst er að sá kostnaður myndi að endingu lenda á neytendum með hærra vöruverði.“

Þá segir að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi ákveðið að fresta gildistöku reglugerðarinnar, sem var 1. júní, en ekki liggi hins vegar fyrir hvort hætt verði við kröfuna um lóðrétt strikamerki.

mbl.is

Bloggað um fréttina