Fyrirtaka í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Møller Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana, fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.
Kolbrún Benediktsdóttir, varahérðassaksóknari, lagði fram viðbótargreinargerð vegna staðsetningu símanúmers Olsens og verjandi hans lagði fram tvær matsbeiðnir. Annars vegar varðandi fimm spurningar fyrir réttarmeinafræðing og hins vegar tvær spurningar fyrir bæklunarlækni. Þá á ákæruvaldið von á frekari gögnum frá símafyrirtækjum.
Tekin var ákvörðun um að fresta fyrirtökunni til þriðjudagsins 16. maí til þess að finna sérfræðinga til þess að svara spurningunum. Ákæruvaldið gerir ennfremur ráð fyrir að þá liggi fyrir umrædd gögn frá símafyrirtækjunum. Hinn ákærði var ekki viðstaddur fyrirtökuna.