Sagður hafa brotið gegn barnabörnum í áratug

Maðurinn var ákærður af embætti héraðssaksóknara.
Maðurinn var ákærður af embætti héraðssaksóknara. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir kynferðisbrot gegn þremur barnabörnum sínum, en stúlkurnar voru á aldrinum 6 til 14 ára þegar meint brot áttu sér stað og stóðu þau yfir í 10 til 11 ár. Í ákæru málsins kemur fram að maðurinn hafi brotið gegn stelpunum bæði á heimili sínu og heimilum þeirra. Bjó ein þeirra meðal annars um tíma á heimili mannsins.

Fyrstu brotin sem ákært er fyrir voru framin árið 1997 en þau síðustu árið 2007 eða 2008. Er maðurinn ákærður fyrir að hafa áreitt stúlkurnar kynferðislega og haft við þær önnur kynferðismök en samræði og þannig nýtt sér yfirburði sína og traust sitt sem afi stúlknanna til að brjóta gegn þeim.

Maðurinn er meðal annars ákærður fyrir að hafa látið stúlkurnar fróa sér, sýnt klámmyndbönd og talað til þeirra á kynferðislegan hátt. Þá er maðurinn ákærður í eitt skipti fyrir hótanir gegn einni stelpunni. Er hann sagður hafa brotið gegn henni er bróðir hennar kom í heimsókn og hótaði maðurinn stelpunni þá að hann myndi meiða bróðurinn ef hún segði frá og síðar að hann myndi meiða móður hennar.

Tvær stúlknanna fara fram á miskabætur í málinu. Báðar fara fram á þrjár milljónir króna auk vaxta og að maðurinn greiði málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert