„Vilborg tekur alltaf réttar ákvarðanir“

Vilborg Arna ætlar að reyna við Everest í þriðja sinn.
Vilborg Arna ætlar að reyna við Everest í þriðja sinn. Ljósmynd/Instagram-síða Vilborgar Örnu

Þrjár vikur eru liðnar síðan Tomasz Þór Veruson, kærasti Vilborgar Örnu Gissurardóttur, kom heim til Íslands eftir að þau tvö voru leiðsögumenn hóps Íslendinga sem gekk upp í grunnbúðir Mount Everest, hæsta fjalls heims.

Hann hefur verið í daglegu sambandi við hana eftir að hún kom aftur í grunnbúðirnar fyrir viku eftir að hafa gengið upp í þriðju búðir ásamt leiðsögumanni sínum, sjerpanum Tenjee, og farið upp í 7.000 metra hæð til að aðlagast þunna loftinu en fjallið er 8.848 metra hátt. Þetta er þriðja tilraun Vilborgar Örnu til að fara á topp Everest.

Vilborg Arna bíður eftir veðurglugganum.
Vilborg Arna bíður eftir veðurglugganum. Ljósmynd/Vilborg Arna Gissurardóttir/Instagram

„Það er verið að bíða eftir veðurglugga. Það er búið að vera kalt og hvasst síðustu daga. Það eru allir  klifrarar á fjallinu að bíða,“ segir Tomasz og bætir við að veðrið á fjallinu sé mjög fljótt að breytast. 

Vegna veðurs hafa sjerparnir á fjallinu ekki getað sett upp öryggislínu á fjallið en hún er sett upp frá fjórðu búðum. Enginn fer upp fjallið nema að vera undir það búinn að geta verið í slíkri línu, að sögn Tomaszar.

Núna lítur út fyrir að fyrsta tækifæri Vilborgar Örnu til að geta byrjað gönguna gæti orðið næsta sunnudag en um fjóra daga tekur að komast á toppinn.

Vilborg Arna Gissurardóttir er klár í slaginn.
Vilborg Arna Gissurardóttir er klár í slaginn. Ljósmynd/Instagram-síða Vilborgar Örnu

Má ekki líða of langur tími

Spurður hvort biðin eftir því að komast upp sé ekki taugastrekkjandi segir hann að þeim mun lengur sem menn bíða því meira tekur það á. „Núna er að renna upp tímabil þar sem menn vilja fara að gera eitthvað. Í hennar tilfelli og allra er mjög mikilvægt að viðhalda þessari aðlögun sem fólk hefur farið í gegnum. Það má ekki líða of langur tími á milli,“ segir Tomasz og nefnir að Vilborg Arna fari þess vegna daglega í göngur.

Tomasz Þór og Vilborg Arna.
Tomasz Þór og Vilborg Arna.

Skynsamur fjallaklifrari

Afar áhættusamt er að reyna að komast upp á tind Everest. Tomasz er að sjálfsögðu vel meðvitaður um það og eru áhyggjurnar aldrei langt undan. „Maður hefur alltaf skrítnar tilfinningar en ég veit líka af því að hún er í mjög góðu formi og er rosalega skynsamur fjallaklifrari. Ég veit að Vilborg tekur alltaf réttar ákvarðanir. Það eina sem maður getur gert er að bíða heima og vona það besta, að hún komist upp og komist niður.“

Vilborg Arna og Tomasz Þór á toppi Island Peak sem …
Vilborg Arna og Tomasz Þór á toppi Island Peak sem er 6.189 metrar á hæð. Ljósmynd/Vilborg Arna

Fær fregnir í gegnum talstöð

Þegar Vilborg Arna leggur af stað upp Everest verður Tomasz í sambandi við sjerpann sem sér um leiðangur hennar. Hann  verður í sambandi við hana í gegnum talstöð. „Ég veit alltaf hvað er í gangi, hvað er framundan og um líðan og fleira en ég verð ekki í beinu sambandi við hana eftir að hún leggur af stað úr grunnbúðunum.“

Mynd af Everest-fjalli tekin úr grunnbúðunum.
Mynd af Everest-fjalli tekin úr grunnbúðunum. Ljósmynd/Tomaz Þór Veruson

„Staður sem breytir manni“

Þegar Tomasz fór í grunnbúðirnar á dögunum var það í annað sinn sem hann kom þangað. „Það er alltaf jafnyndislegt að koma þangað. Þetta er staður sem breytir manni,“ greinir hann frá.

„Maður bremsast svolítið niður. Maður hefur ekki tímaskyn á svona göngu. Það er lítið samband við umheiminn og maður kúpar sig svolítið út úr öllu. Fyrir fjallafólk er þetta sérstakur staður. Það er ekkert annað en fjöll þarna. Það er gríðarlega skemmtilegt að koma þangað og maður vill fara aftur.“

Eftir að Tomasz Þór, Vilborg Arna og félagar komust upp …
Eftir að Tomasz Þór, Vilborg Arna og félagar komust upp í grunnbúðir Evrest. Ljósmynd/Tomasz Þór Veruson

Ætlarðu þér líka upp á toppinn?

„Það er aldrei að vita en maður tekur eitt skref í einu,“ segir hann en í haust hafa skötuhjúin sett stefnuna á aðra ferð til Nepals. Þá ætla þau að ganga upp í grunnbúðirnar og klífa eitt fjall í leiðinni.

Á leiðinni upp í grunnbúðir Everest.
Á leiðinni upp í grunnbúðir Everest. Ljósmynd/Tomasz Þór Veruson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert